Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 13:53:24 (2770)

1997-01-28 13:53:24# 121. lþ. 56.2 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[13:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það stjfrv. sem hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er hið mikilsverðasta mál sem þarf að fá vandaða skoðun af hálfu þingsins. Ég ætla ekki að ræða þetta mál efnislega þótt ástæða væri til, einkum vegna þess hvernig þingstörfum er háttað hér á þessum degi en vil aðeins þakka fyrir að frv. skuli koma til umræðu í upphafi vorþings. Ráðrúm ætti því að vera til að það fái góða skoðun og afgreiðslu á þessu þingi.

Það er afar mikilvægt að hægt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem frv. fjallar um með góðum fyrirvara og þau ýmsu álitaefni sem þarna eru fái vandaða athugun áður en til framkvæmda kemur í krafti nýrra laga.

Ég er sammála hæstv. forsrh. um að sú reynsla sem fengist hefur nýlega í sambandi við þessi efni bendir til að brugðið hafi verið á rétt ráð í sambandi við ákvarðanir og vald til rýmingar ef hættuástand skapast. Hér þurfa menn auðvitað að feta sig áfram og læra af reynslu. Það mun vafalaust verða. Þessi mál eru komin í allt annan og farsælli farveg en var áður en síðasta áfallahrina skall yfir byggðarlög og landsmenn alla með þeim fórnum sem fylgdu og er það vel. Auðvitað hefðum við mörg hver og öll vafalaust talið að það hefði verið efni til að bregðast fyrr við en um það er ekki að sakast. Aðalatriðið er að sjálfsögðu það að nú verði brugðið á rétt ráð. Nú sýni menn ábyrgð og fyllstu aðgæslu í þessum efnum. Menn verði varúðarmegin í sambandi við ákvarðanir þegar hættu ber að höndum og umfram allt að menn taki ákvarðanir að því er varðar skipulag, bæði byggðar, umferðar og að öðru leyti sem lúti að því að sem minnst hætta sé á áföllum og tjóni og þá ekki síst manntjóni af völdum þeirra náttúruhamfara sem frv. fjallar um.

Ég á sæti í þeirri þingnefnd sem mun fá málið til meðferðar og mun þar að sjálfsögðu taka þátt í umfjöllun þess og stuðla að því að frv. geti orðið að lögum, eftir atvikum með einhverjum breytingum, á því vorþingi sem nú er hafið.