Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 13:57:04 (2771)

1997-01-28 13:57:04# 121. lþ. 56.2 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[13:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja örfá orð í belg í umræðu um þetta frv. og fjalla annars vegar um fáein efnisatriði þess og hins vegar almennt um þann grundvöll sem það hvílir á.

Ef við víkjum fyrst að einstökum efnisatriðum þá eru í frv. nokkur nýmæli sem ástæða er til að taka til athugunar. Mér sýnist að sum þeirra geti verið til bóta ef rétt er á málum haldið. Mér finnst athyglisverð sú tillaga að komið verði á rannsóknarnefnd, eins og lagt er til í 8. gr. frv., sem hafi það hlutverk að rannsaka atvik með það í huga að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig. En ég velti fyrir mér hvort ekki sé of þröngt skilgreint hlutverk nefndarinnar.

Mér finnst einnig athyglisverð sú tillaga að veita lögreglustjóra heimild umfram það sem hefur verið þar sem hann getur rýmt svæði án þess að fyrir liggi ákvörðun Veðurstofu Íslands um þá rýmingu. Ég tel að það geti vel komið til greina og verið til bóta að hafa heimild af þessu tagi í lögunum.

Önnur atriði í frv. sem ég vil víkja að eru fáeinar ábendingar. Það er fyrst í 11. gr. frv. þar sem mælt er svo fyrir um að sveitarfélög kaupi upp íbúðir á svæðum þar sem talið er dýrara að reisa varnarvirki en kaupa upp íbúðir. Það er ekki ágreiningsefni af minni hálfu að þannig skuli staðið að málum þegar kostnaður er meiri við varnarvirki en uppkaup. En ég set spurningarmerki við það ákvæði 11. gr. að sveitarfélög eigi að vera eigandi fasteignarinnar en ráðherra á að ráða hvort sveitarfélagið geti gert nokkuð við þær. Mér finnst ekki fara saman að einum aðila sé gert skylt að eiga eign en annar aðili hafi í hendi sinni hvernig hún er nýtt. Ég hygg að löggjafinn verði að treysta sveitarfélögunum til að nýta fasteignirnar skynsamlega fyrst menn eru á þeirri skoðun að eðlilegt sé að sveitarfélögin eigi þær. Ef menn treysta ekki sveitarfélögunum til að nýta fasteignirnar skynsamlega þá er ekki ástæða til að skylda sveitarfélögin til að eiga þær. Þetta getur ekki farið saman að mínu viti eins og frá málinu er gengið í frv.

[14:00]

Þá bendi ég á að í 13. gr. frv. er fjallað um endurgreiðslu af láni sem sveitarfélag getur fengið hjá ofanflóðasjóði fyrir sínum kostnaðarhlut. Þar er sett fram regla um hvernig endurgreiðslu skuli háttað og við hvað skuli miðað. Ein viðmiðunin er álagningarstofn fasteignaskatts í sveitarfélaginu, þ.e. að ákveðið hlutfall af þeim stofni er notað sem viðmiðun til þess að ákveða hve mikið sveitarfélag eigi að endurgreiða af láninu. Þarna finnst mér vanta að bæta inn í eða taka fram að ekki sé reiknað með í álagningarstofni fasteignaskatts, skatti af því íbúðarhúsnæði sem hefur verið keypt upp í sveitarfélaginu. Það dæmi höfum við fyrir okkur nú þegar í Súðavík þar sem eru allmörg íbúðarhús sem munu standa auð eða verða eign sveitarfélagsins í framtíðinni og væntanlega vera lítið notuð og gefa af sér litlar tekjur en íþyngja hins vegar endurgreiðslu sveitarfélagsins verulega ef lagasetningin verður í samræmi við frv. eða þetta ákvæði í 13. gr. frv.

Þá vil ég vekja athygli á 15. gr. frv. en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem flutt eru hingað til lands eða framleidd eru hér á landi til varna gegn ofanflóðum.``

Þetta er hið þarfasta ákvæði en ég bendi á, af því sú mikla hógværð er sýnd í þessu frv. að ekki er á það minnst, að fyrir þinginu liggur annað frv. þar sem þetta er lagt til. Það var lagt fram snemma á þessum þingvetri af fimm hv. þingmönnum og 1. flm. er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Fyrsta grein þess frv. á þskj. 156 er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem framleidd eru innan lands eða flutt sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum.``

Mér hefði fundist eðlilegt, virðulegi forseti, af því fyrir liggur frv. nákvæmlega sama efnis í þessu tilviki, að í stjfrv. hefði þess verið getið. Mér finnst það óþarfa hæverska að láta hvorki í athugasemdum við málið í heild né við einstakar greinar þess getið að þetta mál lá þegar fyrir þinginu þegar þetta stjfrv. var lagt fram. (Gripið fram í.) Já, já, ég efast ekki um það, hv. þm., að hér sé bara um athugunarleysi að ræða og læt ekki annað hvarfla að mér, en kem þessu vinsamlegast á framfæri engu að síður.

Þá vil ég, virðulegi forseti, segja fáein orð um málið í heild sinni svo sem eðlilegt er við 1. umr. máls að fjalla um þá pólitísku hugsun sem er að baki málinu. Það er fyrst sú lína sem dregin er upp og er í gildandi lögum, að sveitarfélög eigi að taka þátt í þessu máli. Við erum að tala um öryggisatriði og það hefur orðið niðurstaða fram til þessa og er lagt til að svo verði áfram, að sveitarfélög beri á þessu öryggismáli nokkra ábyrgð sem endurspeglast í því að þeim er gert að borga ákveðinn hlut af kostnaðinum auk þess að hafa frumkvæði við gerð hættumats o.s.frv. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé eðlilegur gangur máls, a.m.k. vek ég athygli á því að þetta er ekki í samræmi við önnur sambærileg atvik sem menn geta borið saman við. Mér er ekki kunnugt um að sveitarfélög séu gerð ábyrg fyrir skaða á eignum manna sem verða af öðrum ástæðum en þessum. Við getum nefnt umferðaróhöpp. Við getum nefnt tjón af völdum eldsumbrota eða jarðskjálfta. Ég velti því fyrir mér hvort það sé rétt almenn lína að í þessum atvikum líka eigi að gera sveitarfélögin ábyrg fyrir málinu og láta þau bera hluta af kostnaðinum sem af atburðunum verða. Ég er viss um að það þættu, t.d. í Reykjavíkurborg, nokkuð harðir kostir ef þessi hugsun yrði útfærð víðar en gert er í þessu máli og Reykjavíkurborg gert að bera ábyrgð á tjóni af völdum annarra náttúruhamfara eða slysa og borga hlutdeild í því tjóni. Mér finnst mikið vafamál að hafa tvær reglur í gangi í þessum málum, aðra varðandi snjóflóð og skriðuföll og síðan hina regluna í öðrum tilvikunum. Mér finnst eðlilegt að sama regla gildi yfir allt þetta svið en útiloka ekki að sú regla sem hér er lögð til geti gilt í hinu tilvikinu líka.

Þá er ég mjög ósammála því ákvæði frv. í 6. gr. sem er sambærilegt við núgildandi lög, að Veðurstofa Íslands sé sá aðili sem lýsir yfir hættuástandi og sér um að taka þá ákvörðun að rýma skuli. Ég tel að sérfræðingar eigi að vera til ráðuneytis en ekki til þess að stjórna þessum málum. Ég tel að það eigi að vera á ábyrgð manna á hverjum stað að taka af skarið um það hvort og hvenær beri að rýma hús á því svæði sem menn búa. Mér finnst eðlilegast að þeir sem búa á einstökum stöðum glími við þetta mál og miklu eðlilegra en að taka málið úr þeirra höndum og flytja það til Veðurstofu Íslands. Hins vegar er mjög eðlilegt að þar sé safnað saman ákveðinni þekkingu og sérfræðingum sem eru síðan til ráðuneytis þeim sem eiga að bera endanlega ábyrgð á málinu. Ég er mjög ósammála því að svo hafi til tekist að menn hafi ákveðið að treysta ekki íbúunum á einstökum stöðum fyrir þeirri ákvörðun að rýma hús þegar ástæða þykir til.

Ég vil svo segja um kostnaðarþáttinn að öðru leyti að ég er sammála því að hann verði leystur með því meginsjónarmiði að allir leggi sameiginlega í sjóð sem síðan er sótt í til þess að borga bætur eða bæta tjón sem hlýst af völdum snjóflóða eða skriðufalla. Það er eðlilegt í tilviki sem þessu að koma upp samtryggingarsjóði sem þjóðin öll stendur sameiginlega á bak við sem tryggingaraðili og allir landsmenn eru jafnréttháir til að sækja úr honum við sambærilegar aðstæður.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að það er ekki samhljómur um þessa stefnu í þjóðfélaginu og fjárln. var gerð grein fyrir því á liðnu ári, í desember sl. þegar fulltrúar Reykjavíkurborgar komu til fundar við fjárln. að þeir voru ósammála þessari stefnu og töldu að það fé sem innheimt verður af fasteignum eins og lagt er til ætti að renna til varna í því sveitarfélagi sem það kemur frá. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa upp minnisblað sem fulltrúar Reykjavíkurborgar lögðu fyrir fjárln. Þar segir svohljóðandi um þetta forvarnagjald sem þá hét:

,,Samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins er heildarbrunabótamat fasteigna í Reykjavík 699,9 milljarðar. Húseigendur í Reykjavík munu því á næsta ári þurfa að greiða um 140 millj. kr. í forvarnagjald sem samkvæmt heiti laganna hlýtur að verða nýtt til þess að verja húseignir borgarbúa gegn snjóflóðum og skriðuföllum.``

Þetta sjónarmið kom mér alveg í opna skjöldu því ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fram að þeim tíma að sú skoðun væri uppi í höfuðborginni að menn ættu ekki að styðjast við samtryggingarkerfi eins og ég rakti áðan og lagt er til í frv. heldur ætti hver að hugsa um sig. Í minnisblaðinu er því ekki andmælt að leggja þetta gjald á heldur einungis hvernig því skuli ráðstafað. Ég er mjög ósáttur við það að fulltrúar höfuðborgarinnar skuli koma fram með þetta sjónarmið, þ.e. að tekjur af þessu gjaldi sem koma héðan úr Reykjavík eigi einvörðungu að verja til varnaraðgerða í Reykjavík. Ég tel það afar hættulega þróun ef fulltrúar einstakra sveitarfélaga fara að líta svo á að þeirra verkefni sé að hugsa einvörðungu um hagsmuni íbúa í sínu sveitarfélagi en ekki þjóðarinnar allrar. Ég vænti þess að breyting verði á þessari afstöðu Reykjavíkurborgar þó svo að ekki hafi komið annað fram í þessari heimsókn fulltrúa Reykjavíkurborgar en að þeir stæðu fastir á þessari skoðun sinni.

Virðulegi forseti. Ég vil láta þetta nægja af minni hálfu sem umfjöllun um þetta mál en hvet til þess að hæstv. ríkisstjórn leggi sig fram um það að ná sáttum í þjóðfélaginu um það fyrirkomulag að viðhafa samtryggingarkerfi eins og lagt er til í frv.