Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 14:19:44 (2775)

1997-01-28 14:19:44# 121. lþ. 56.2 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[14:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Mér sýnist að í stórum dráttum sé frv. samkomulagsmál og þó að þeir sem hér hafa talað hafi komið með ábendingar, má segja að í jafnviðkvæmu máli og þessu hafi náðst mikil og góð samstaða um hvernig með skuli fara.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að með frv. er eiginlega verið að ljúka því verki sem hafið var fyrir tveimur árum með að flytja þá þætti málsins sem áður heyrðu undir félmrn. sem sveitarstjórnaráðuneyti undir umhvrn., með því að ofanflóðasjóður verður núna vistaður í umhvrn. Mér finnst þetta skipta miku máli. Það er skoðun mín að ekki hafi verið gott að málefni ofanflóða hafi verið á höndum tveggja ráðuneyta auk þess sem eftirlits- og almannavarnaþátturinn var í dómsmrn. Það er afar brýnt að hafa sem besta yfirsýn í svona málum og eins skýra og gagnsæja yfirstjórn og unnt er. Þess vegna var það ekki gott að þessi mál voru í mörgum ráðuneytum og örlítið greindi menn á hvað heyrði undir hvern á tímabili þegar hin verstu mál voru að skella yfir þó það hafi nú sem betur fer ekki haft nein áhrif á viðbrögð stjórnvalda í snjóflóðunum.

Það er mjög mikilvægt að fá nýtt hættumat og eins öruggt og unnt er þó við verðum auðvitað að hafa í huga að við munum seint í okkar landi geta tryggt og sagt að eitthvert svæði sé alveg öruggt gagnvart náttúrunni. Hins vegar er mjög mikilvægt, af því að það þarf að afnema gamla hættumatið áður en hið nýja verður til, að farið verði varlega með bráðabirgðareglurnar á meðan. Það eru vissulega höfð hér orð um að mörkin verði örugg fyrir byggingarsvæði vegna varfærnissjónarmiða og ég legg mikla áherslu á það. Ég skil líka áhyggjur manna eins og hv. 5. þm. Vestf. af því að þeir sem hafi á hendi forræði þess að rýma svæði séu fyrir sunnan. En ég tel að ákvæðið sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi, þ.e. að heimild lögreglustjóra, ef maður getur orðað það svo, ætti að eyða þessum áhyggjum. Það er auðvitað oft þannig að heimamenn geta lent í því að meta hættuna á annan veg en stofnun og þá hafa þeir möguleika á að taka sjálfstæða ákvörðun þar um.

Það er líka lögð áhersla á að almennt sé hagkvæmara að reisa varanleg varnarvirki en að kaupa og flytja húseignir. Þetta er mjög mikilvæg stefnumörkun og mikilvægt að í framtíðinni verði leitast við að haga byggðaþróun í samræmi við þetta eins og unnt er og með tilliti til þeirra orða sem ég lét falla hér áður. Reynslan hefur sýnt okkur að í þróun byggðar hefur gætt ákveðinnar óaðgæslu og menn fóru kannski svolítið frjálslega með hin ýmsu svæði þegar þeir voru að skipuleggja byggð. Mönnum finnst e.t.v. að ég slái úr og í með sjónarmiðin varðandi þetta vegna þess að ég hlýt að vekja athygli á því að frá örófi alda hafa íbúar á þeim svæðum sem hér um ræðir búið við ógn til lands og sjávar og þess vegna er skiljanlegt að á þessum tíma hafi byggðin þróast jafnvel inn á þau svæði sem síðar reyndust vafasöm.

Við höfum öðlast bitra reynslu á liðnum árum í því hvernig aðstæður geta breyst og náttúran eiginlega snúið allri reynslu okkar frá fyrri árum upp og niður og við hljótum eins og við getum að taka mið af því.

Ég tek undir orð Steingríms J. Sigfússonar um að nefndin taki ákvæði úr frv. þeirra sem hér var til skoðunar fyrir jól og fagna orðum forsrh. þar að lútandi.

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með að forsrh. skuli mæla fyrir máli sem svo mikil sátt er um þó ábendingar komi að sjálfsögðu.