Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 14:24:56 (2776)

1997-01-28 14:24:56# 121. lþ. 56.2 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[14:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vona að þetta frv. sem mér finnst vera hið besta mál fái skjótan framgang hér. Ég held að málið þurfi ekki að dvelja lengi í þinginu og þurfi ekki mjög langa meðferð í hv. umhvn. Það er búið að vinna vel að undirbúningi og fjöldamargir hafa komið að því þannig að mér finnst eðlilegra að afgreiða þetta mál sem tekur yfir allt sviðið fremur en þá tillögu sem menn hafa gert hér að umræðuefni. Mér finnst þetta vera skynsamlegt frv. Hér er þræddur millivegur. Það er samfélagsleg hugsun í frv. Ég tel eðlilegt að samfélagið beri meginhluta kostnaðar af þessum framkvæmdum en jafnframt tel ég líka eðlilegt að sveitarfélögin komi að málinu með ákveðnum hætti. Þeim ber að gæta hagsmuna íbúanna. Það er eðlilegt að þau hafi íhlutunarrétt um málin. Jafnframt bera þau ábyrgð á skipulagi og vissa ábyrgð á því hvernig byggt hefur verið á hinum einstöku stöðum í fortíðinni. Ég tel að það hafi verið fundin mjög mjúk lending fyrir þeirri kostnaðarþátttöku sem sveitarfélögin eiga að bera. Það er komið mjög langt til móts við óskir sveitarfélaganna sem kviðu því að þurfa að bera 10% kostnaðar og það var þeim greinilega ofviða, a.m.k. flestum.

Það er eitt atriði sem mér finnst að þurfi að skoða í hv. umhvn. og ég vil biðja menn að hafa í huga. Það er 4. töluliður 13. gr., þ.e. að sveitarfélögin greiði 40% og ríkið 60% af viðhaldi þessara varnarvirkja. Við getum hugsað okkur að það verði óhapp, það falli skriða og varnarvirki skemmist mjög og þá gæti það orðið mjög þungur baggi fyrir sveitarfélag að endurnýja það. Þetta eru verkefni upp á milljarða og mér finnst að það þurfi að velta því fyrir sér hvort þarna sé ekki verið að leggja óþarflega þungan bagga á sveitarfélögin.

Varðandi bréf Reykjavíkurborgar sem hv. 5. þm. Vestf. vitnaði til þá vil ég persónulega helst gleyma því bréfi því að ég varð undrandi þegar ég sá það. Hér er um náttúruvá að ræða og ég efa ekki að ef náttúruvá yrði í Reykjavík þá mundi samfélagið allt koma til aðstoðar. Ef hér yrði tjón af eldgosi, jarðskjálfta eða stórfelldum sjávarflóðum þá tel ég það alveg sjálfsagðan hlut að samfélagið allt taki þátt í því að bæta þar úr.