Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 14:30:36 (2778)

1997-01-28 14:30:36# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[14:30]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Sú harða andstaða sem myndast hefur gegn álveri á Grundartanga gæti markað tímamót í atvinnu- og umhverfismálum hér á landi. Hún er til marks um aukinn skilning á nauðsyn umhverfisverndar og þeim miklu möguleikum sem felast í náttúru landsins, í hreinu og lítt spilltu umhverfi. Hún er þungvæg áminning til ráðamanna um hverja ábyrgð þeir bera á því að þeim möguleikum verði ekki spillt í skammsýnni sókn eftir stundargróða. Og þá erum við ekki aðeins að tala um möguleika til þeirrar lífsnautnar sem sérstæð náttúra landsins býður upp á né þá möguleika til vísindaiðkana sem í henni felast, heldur einnig þá miklu atvinnumöguleika sem byggjast á hreinu og óspilltu umhverfi.

Fyrirhugað álver á Grundartanga er í brennidepli umræðunnar en málið er í raun miklu víðtækara en svo að það snúist aðeins um eitt álver. Það snýst um stefnu okkar í atvinnumálum, um val milli atvinnukosta og möguleika til uppbyggingar. Það snýst um alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum. Það snýst um lýðræðislegan rétt landsmanna til áhrifa á eigið umhverfi og það snýst um ábyrgð gagnvart afkomendum okkar sem eiga að erfa landið.

Um áratuga skeið hefur uppbygging orkufrekrar stóriðju verið áhersluatriði í atvinnustefnu íslenskra stjórnvalda. Miklum fjármunum og tíma hefur verið varið í leit að erlendum fjárfestum í því skyni og þar hafa iðnrn. og Landsvirkjun lagt saman krafta og mikið fjármagn. Fréttir hafa birst með reglulegu millibili um gang viðræðna við hina og þessa aðila og um áhuga erlendra fjárfesta frá ýmsum löndum, fyrirtækjum og fyrirtækjasamsteypum. Á vissan hátt hefur manni oft fundist sem ráðherrar og ýmsir ráðamenn teldu og vildu láta almenning halda að orkufrek stóriðja, úrvinnsla málma af einhverju tagi, en þó allra helst álframleiðsla væri helsta bjargræði okkar í atvinnumálum. Í rauninni hefur atvinnustefna stjórnvalda einkennst af furðu einhæfum hugmyndum og aðgerðum með höfuðáherslu á beislun fallvatna og mengandi stóriðju. Þau hafa jafnvel egnt fyrir erlenda fjárfesta með yfirlýsingum um lág vinnulaun hér á landi, lágt orkuverð og lágmarkskröfur um mengunarvarnir. Gagnrýni á þessa stefnu hefur jafnóðum verið mætt með miklum slagkrafti og andmælendur nánast úthrópaðir sem afturhaldssamir ofstækismenn, andvígir hvers kyns framförum og það er ekki laust við að slíkar raddir heyrist nú í þeirri heitu umræðu sem spunnist hefur út af áformum um álver á Grundartanga og tillögu Hollustuverndar ríkisins um starfsleyfi vegna slíks álvers.

Andstaðan gegn fyrirhuguðu álveri á Grundartanga byggist á nokkuð mismunandi forsendum. Í fyrsta lagi eru þeir sem eru andvígir slíkri atvinnustarfsemi yfirleitt hér á landi. Þeir benda á umhverfisspjöllin sem henni fylgja, sjónmengun og landsspjöll, mengun lofts og umhverfis, staðbundna og tímabundna þenslu á vinnumarkaði vegna framkvæmda og gríðarlegan kostnað að baki hverju starfi í stóriðjuverum. Og þeir benda á neikvæð áhrif mengandi stóriðju á þá ímynd hreins og ómengaðs umhverfis sem önnur atvinnustarfsemi byggist á, svo sem ferðaþjónusta, lífræn ræktun og matvælavinnsla. Og ekki síst leggja þeir áherslu á aðild okkar að alþjóðlegum skuldbindingum um varnir gegn mengun.

Í öðru lagi eru þeir sem fyrst og fremst andmæla staðsetningu álvers í Hvalfirði. Rök þeirra eru í raun nákvæmlega hin sömu og fyrr eru talin, en þeir telja hins vegar aðra staði hér á landi koma til greina þar sem minni skaði yrði að sjómengun og öðrum áhrifum á mannlíf og atvinnustarfsemi. Í þessum hópi eru sennilega flestir heimamanna sem látið hafa til sín taka í þessu máli, svo og margir bændur og starfandi fólk í ferðaþjónustu. Þessa afstöðu má lesa út úr ályktunum Ferðamálaráðs Íslands, Bændasamtaka Íslands og Félags bænda í lífrænni ræktun þar sem lýst er miklum áhyggjum vegna stefnu stjórnvalda og lögð áhersla á eflingu atvinnu sem fellur betur að þeirri ímynd sem við höfum skapað okkur um hreint og ómengað land eins og segir, með leyfi forseta, orðrétt í ályktun stjórnar Bændasamtaka Íslands. Tímans vegna get ég ekki lesið upp þessar ályktanir sem hljóta að vega þungt í umræðunni en andi þeirra allra felst í þeim orðum sem ég vitnaði til.

Það þarf meira en litla trú á hjálpræði stóriðjustefnunnar ef hæstv. umhvrh., sem reyndar er einnig landbrh., telur sig þess umkominn að skella skollaeyrum við varnaðarorðum þessara aðila.

Í þriðja lagi eru svo þeir sem fyrst og fremst gagnrýna málsmeðferð, gagnrýna hvernig staðið var að umhverfismati og tillögugerð og telja kröfum um mengunarvarnir áfátt.

Herra forseti. Íbúar í nágrenni Grundartanga, hagsmunasamtök í ferðaþjónustu, landbúnaði og matvælavinnslu og fjöldi náttúruvísindamanna og áhugafólks um verndun íslenskrar náttúru og umhverfis horfa nú til hæstv. umhvrh. og bíða viðbragða hans. Ég hef dregið áhersluatriði umræðunnar saman og óskað svara hæstv. ráðherra við eftirfarandi 10 liðum:

1. Hvernig hyggst umhvrh. bregðast við mótmælum íbúa í nágrenni iðnaðarsvæðisins á Grundartanga gegn áformum um álverksmiðju sem þeir telja andstæð hagsmunum sínum?

2. Telur ráðherra rétt að fullyrða um fjárhagslegan ávinning af álveri sem einangruðu fyrirbæri alveg án tillits til annarra kosta? Hefði ekki verið rétt og eðlilegt að freista þess að leggja mat á áhrif álvinnslu á aðra atvinnustarfsemi í nærliggjandi héruðum, svo sem lífræna ræktun, vinnslu matvæla og ferðaþjónustu?

3. Telur umhvrh. rétt að miða umhverfismat við aðeins einn hluta viðamikilla framkvæmda, í þessu tilviki álver á Grundartanga, í stað þess að horft sé á alla myndina í einu, þ.e. álverið ásamt tilheyrandi orkuverum og línulögnum?

4. Hvers vegna er í umhverfismati og tillögu að starfsleyfi gert ráð fyrir allt að 180 þúsund tonna álframleiðslu á Grundartanga en ekki 60 þúsund tonna framleiðslu eins og verksmiðjan er miðuð við?

5. Telur ráðherra að sá mengunarvarnabúnaður sem kröfur eru gerðar um í tillögu Hollustuverndar sé miðaður við fullkomnustu tækni sem völ er á? Ef svo er, hvers vegna geta þá samsvarandi verksmiðjur náð mun betri árangri í mengunarvörnum?

Ég tek fram að hér vísa ég til upplýsinga í greinargerð Högna Hanssonar líffræðings, sem er sérmenntaður á sviði mengunar og mengunarvarna, en þetta álit var sent öllum alþingismönnum og birtist raunar í Morgunblaðinu sl. föstudag.

6. Mun umhvrh. sjá til þess að farið verði gaumgæfilega yfir athugasemdir Högna Hanssonar líffræðings og m.a. kannaðar mengunarvarnir sem notaðar eru í Svíþjóð og eru sagðar tryggja margfalt betri árangur en sá hreinsibúnaður sem reiknað er með í fyrirhuguðu álveri á Grundartanga?

7. Viðurkennt er að heildarútblástur koltvíoxíðs muni aukast hér á landi um 4,7% vegna 60 þúsund tonna álframleiðslu og hátt í 11% við 180 þúsund tonna framleiðslu. Hvernig ætlar umhvrh. að réttlæta slíka aukningu með tilliti til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem skuldbindur aðildarþjóðir og Íslendinga þar með til þess að sjá til þess að útstreymi koltvíoxíðs verði ekki meira um aldamótin en það var árið 1990?

8. Hvernig bregst umhvrh. við nýlegri ályktun Ferðamálaráðs Íslands þar sem lýst er og ég vitna beint með leyfi forseta: ,,miklum áhyggjum af afleiðingum áætlana um virkjanir og stóriðjuuppbyggingu sem nú er unnið eftir hérlendis``? Og segir raunar á öðrum stað: ,,Áform um umfangsmikla stóriðju og virkjanir á viðkvæmum stöðum með tilheyrandi náttúruspjöllum og sjónmengun skjóta verulega skökku við ímynd landsins meðal erlendra ferðamanna``. Framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs lýsir því yfir að það telji ,,að þegar hafi orðið umhverfisslys með tilliti til útlits og staðsetningar stóriðjuvera``.

9. Þá spyr ég: Hvernig svarar umhvrh., sem jafnframt er landbrh., nýlegum ályktunum stjórnar Bændasamtaka Íslands og stjórnar Félags bænda í lífrænni ræktun þar sem í báðum þessum ályktunum koma fram veigamiklar athugasemdir við áform stjórnvalda um álver á Grundartanga?

10. Telur umhvrh. að enn frekari uppbygging stóriðju samrýmist því markmiði sem sett er fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ég vitna beint, með leyfi forseta ,,að Ísland hafi ímynd hreinleika og umhverfisverndar``?