Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 14:51:37 (2780)

1997-01-28 14:51:37# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[14:51]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál til umræðu. Ég tel að uppbygging stóriðjunnar, hvar sem hún er í landinu, gefi vissulega tilefni til þess að um hana sé rætt í þinginu og tekið á þeim fjölmörgu erfiðu viðfangsefnum sem lúta að henni. En ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég harma hversu mér fannst bregða fyrir mikilli neikvæðri afstöðu hjá hv. þm. til iðnaðaruppbyggingar. Þó að vissulega þurfi að draga fram varnaðarorð verðum við að taka fordómalaust afstöðu, ræða fordómalaust um þau mál sem varðar uppbyggingu atvinnulífsins í landinu og það er auðvitað hið mikilvæga verkefni.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld á Íslandi verið sökuð um að ganga of hægt fram í uppbyggingu iðnaðarstarfsemi, ganga of hægt fram í því að skapa atvinnutækifæri fyrir fólkið í landinu. Það hefur verið mjög horft til þess að virkja fallvötnin og nýta þá orku í iðnaðaruppbyggingu. Þegar síðan kemur að því að hlutirnir fara að gerast þá bregðast menn við til varnar. Ég tel eðlilegt að bregðast til varnar og hafa uppi varnaðarorð og sjá til þess að hvorki sé gengið of nærri náttúrunni né leyfð mengandi starfsemi. Við erum hins vegar svo lánssöm að við eigum marga ágæta vísindamenn í landinu sem við verðum að treysta á og leggja áherslu á að séu okkur til leiðsagnar þegar kemur að því að meta mengun frá atvinnustarfseminni og meta hvort við göngum of nærri náttúrunni með einum eða öðrum hætti. Við stjórnmálamennirnir eigum ekki annarra kosta völ en að treysta á vel menntaða Íslendinga til þess að veita okkur leiðsögn á þeirri erfiðu vegferð þar sem er uppbygging iðnaðarins og nýting fallvatna landsins.

Meðal þess sem okkur ber skylda til að sjá um er að sveitarfélögin á hverju svæði vinni sína vinnu. Á undanförnum árum hefur það gerst að við Hvalfjörðinn hafa sveitarfélögin lagt í töluvert mikla vinnu vegna þess að þar er stóriðjufyrirtæki og vegna þess að lögð hefur verið áhersla á að byggja upp iðnaðarfyrirtæki á tilteknum svæðum og þar á meðal við Hvalfjörðinn. Þess vegna lögðu sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar í vinnu við svæðaskipulag sem m.a. tók til þess að þar yrði byggður upp iðnaður í kringum járnblendiverksmiðjuna og á því svæði. Ég hef verið í þeirri góðu trú að heimamenn væru að vinna heimavinnuna sína þannig að við þingmennirnir gætum stutt dyggilega við bakið á aðilum hér, þ.e. iðnrh. í þessu tilviki, við að leita allra kosta til að koma upp iðnaðarfyrirtækjum á Grundartangasvæðinu. Ég lít svo á að sú skipulagsvinna sem sveitarfélögin hafa lagt í, svæðaskipulag fyrir svæðið sunnan Skarðsheiðar, sé mikilvægur þáttur í þessu.

Síðan hefur komið í ljós, eins og eðlilegt er, að það hafa verið skiptar skoðanir. Menn hafa vissar áhyggjur af því að mengun verði frá álveri og frá aukinni stóriðju. Ég lít svo á að það sé skylda bæði til þess kjörinna sveitarstjórnarmanna á svæðinu og einnig skylda okkar þingmanna að setja okkur mjög vandlega inn í þessa hluti, en við megum ekki gera það með fyrir fram fordóma í huga. Eins og ég sagði áðan verðum við að treysta á vísindamennina okkar en spyrja þá spurninga engu að síður sem við verðum að ætlast til þess að fá svör við.

Málshefjandi fór nokkrum orðum um þátt ferðamennskunnar. Ég hef verið einn þeirra sem hafa lagt mjög ríka áherslu á að við ættum marga kosti við uppbyggingu ferðaþjónustu. Auðvitað megum við ekki hætta neinu í þeim efnum, en við megum heldur ekki gleyma því að ferðaþjónustan verður að gæta sín einnig. Forsvarsmenn Ferðamálaráðs verða að gæta sín á því að þeir eru að leggja mikið á íslenska náttúru þegar þeir draga hingað marga ferðamenn til landsins og það þarf einnig að gæta að því.

Ég vil að lokum, virðulegur forseti, vitna til þeirrar fréttatilkynningar sem sveitarstjórnarmenn sunnan Skarðsheiðar hafa sent frá sér. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar leggja áherslu á jákvætt viðhorf til staðsetningar álvers á Grundartanga og telja æskilegt að nýta Grundartangasvæðið skynsamlega í samræmi við fyrirliggjandi svæðisskipulag og tillögu að deiliskipulagi. Sveitarfélögin hafa enn fremur ályktað að ekki verði dregið á nokkurn hátt úr kröfum um varnir gegn mengun. Framþróun atvinnulífsins á svæðinu á næstu árum ræðst að stóru leyti af því að öflug uppbygging iðnaðar eigi sér stað á grundvelli þess sem sveitarfélögin hafa undirbúið um leið og þess er gætt að starfsemin valdi ekki spjöllum á náttúru svæðisins og framkvæmdir við iðjuver verði felldar vel að landi og umhverfi.``

Hér hef ég vitnað í hluta af þeirri fréttatilkynningu sem forsvarsmenn sveitarfélaganna á þessu svæði við Hvalfjarðarströndina hafa sent frá sér. Ég legg áherslu á að það þurfi að hlusta á þá sem bera ábyrgð á sveitarfélögunum á þessu svæði og tel að þeir hafi unnið sína heimavinnu mjög vel. Við þurfum að taka tillit til þeirra sjónarmiða, en auðvitað eigum við að gæta okkar og sjá til þess að landið verði ekki mengað.