Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:15:46 (2783)

1997-01-28 15:15:46# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:15]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Undanfarin ár hefur verið allgóð sátt um að leita að erlendum fjárfestum inn í atvinnulífið. Hvert átakið á fætur öðru hefur verið gert í þeim efnum til að laða að erlenda fjárfesta til Íslands. Flestir flokkar hafa verið sammála að nauðsynlegt væri að fara þá leið. Þrátt fyrir þetta hefur ekkert eða sáralítið gerst í þessum efnum í 20 ár --- í 20 ár hefur verið stöðnun á þessum sviðum. Við höfum búið við 0,1% erlendrar fjárfestingar á landsframleiðslu á meðan þjóðirnar í kringum okkur eru með 1% og Evrópuþjóðirnar upp í 2--3%. Svo er krafist á sama tíma að við Íslendingar eigum að búa við sambærileg kjör ef ekki betri en þjóðirnar í kringum okkur. Þess vegna verðum við líka að búa hér sambærilegar aðstæður í atvinnulífinu til þess að slíkt sé hægt.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Össuri Skarphéðinssyni þegar þeir halda því fram að verið sé að byggja hér fjöldann allan af verksmiðjum og nefna Keilisnes, Grundartanga, magnesíumverksmiðju og þar fram eftir götunum. Þetta er gamla stefnan þegar menn útbjuggu verksmiðjurnar á skrifborði ráðherranna og þeir komust aldrei út í atvinnulífið. Frá þessu hefur verið horfið. Eina ákvörðunin sem tekin hefur verið er sú að byggja 60 þúsund tonna viðbót við álverið í Straumsvík. Það er ekki búið að taka ákvörðun um byggingu álverksmiðju á Grundartanga þó margt bendi til þess.

Þarna falla jafnaðarmennirnir saman. Nú hefur Alþfl. snúið við stefnunni í stóriðjumálum og vill draga þar úr á sama tíma og Alþb. er á hraðri leið með þjóðina inn í Evrópusambandið. Þarna hafa þessir flokkar loksins náð saman. En tilgangurinn með þeim aðgerðum, sem hér er verið að leggja áherslu á, er atvinnusköpun, uppbygging og fjölbreytni í atvinnulífinu til að tryggja efnahagslega afkomu og stöðugleika, til að tryggja hagvöxt og fjölga störfum í framtíðinni og skapa möguleika til aukinna kjarabóta. Það ætti þess vegna að vera kappsmál stjórnvalda og verkalýðshreyfingar einmitt núna um þessar mundir að leggja áherslu á að fá erlenda fjárfestingu inn í landið, byggja upp atvinnulífið þannig að það sé raunverulega til innstæða fyrir þeim kjarasamningum sem þeir ætla núna að fara í. Og menn ættu að hafa í huga orð Guðmundar J. Guðmundssonar, fyrrv. alþm. Alþb. og formanns Dagsbrúnar, sem hann lét hér falla árið 1991: Þeir sem eru á móti álveri eru þeir sem eru með atvinnuleysi.

Það ætti að vera kappsmál þessara aðila að ná saman um uppbyggingu atvinnulífsins. Staðreyndin er sú að gangi þessi áform eftir mun erlend fjárfesting aukast hér um 12 milljarða kr. Störfum mun fjölga um 600 með þessu. Útflutningsverðmæti þjóðarinnar munu aukast um 6,3 milljarða kr. Svo stefna menn hér sífellt saman og etja saman atvinnugreinum. Ég tel að atvinnugreinar geti lifað saman ef skynsamlega er á haldið, t.d. ferðaþjónusta og stóriðja.

En við skulum hafa það líka í huga að á hvern starfsmann sem starfandi er í stóriðjunni eru útflutningsverðmætin fjórum sinnum meiri heldur en í ferðaþjónustunni þannig að menn mega ekki gera hlut ferðaþjónustunnar meiri en hann er þótt hann sé afskaplega mikilvægur.

Að undirbúningi og staðsetningu álvers á Grundartanga hefur verið staðið eðlilega að eins og lög mæla fyrir um. Óskir heimamanna frá 1991 um staðsetningu álvers á þessum stað. Svæðaskipulag samþykkt í apríl 1994, staðfest af þáv. umhvrh. Össuri Skarphéðinssyni. Mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram og umræður um hugsanlega byggingu álvers á Grundartanga hafa staðið yfir í eitt ár. Ég hef hins vegar fullan skilning á því að ganga verður fram af varfærni og mikilli nærgætni við náttúruna þegar stórframkvæmdir eru á döfinni eins og þessar. Það verður gert og það hefur verið gert. En þetta er auðvitað ekki í fyrsta skiptið sem umræða fer fram á þessum nótum þar sem risið er upp og mótmælt slíkum framkvæmdum. Þetta þekkja menn frá byggingu álversins í Straumsvík og þetta þekkja menn líka frá byggingu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.

Við höfum ekki langa reynslu af því að starfa í nábýli við verksmiðjur eins og álverksmiðjur. En hver er reynslan þann skamma tíma? Hafnfirðingar lifa í góðri sátt við álverið í Straumsvík. Meðalstarfsaldur starfsmanna álversins í Straumsvík er einn sá hæsti á Íslandi. Laun iðnaðarmanna í álverinu í Straumsvík eru 40% hærri en laun iðnaðarmanna á almennum markaði. Þegar járnblendið var byggt voru svipaðar umræður uppi líka. Þá voru engir sumarbústaðir til í Kjósinni. En hvað hefur gerst? Þrátt fyrir járnblendið hefur sumarbústöðum stórlega fjölgað í Kjósinni. Þetta er gleggsta dæmið um að ferðaþjónustan og stóriðjan eiga saman á þessu sviði og það eiga menn að halda utan um.