Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:31:58 (2786)

1997-01-28 15:31:58# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:31]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ekki er að undra þótt þeir séu allmargir sem líta svo á að bygging álvers verði okkur bjargræðisvegur í baráttunni við atvinnuleysið. Ef við ætlum okkur að skapa hér u.þ.b. tólf þúsund ný störf fyrir aldamót eins og framsóknarmenn lofuðu fyrir kosningar getum við að sjálfsögðu illa sleppt þvílíku tækifæri. Ég get að ýmsu leyti skilið þetta sjónarmið þó mér hrjósi að vísu hugur við því að auglýsa Ísland á markaðstorgi hins frjálsa framtaks veraldarinnar á þeim forsendum að hér sé orkuverð lágt og laun með þvílíkum endemum að löngu er hætt að gera ráð fyrir því að verkamenn geti lifað af þeim. Þeir verði að huggast við þá kaupmáttaraukningu sem hæstv. ríkisstjórn reiknar þeim og liggur einhvers staðar langt fyrir vestan allan raunveruleika. En jafnvel þetta nægir þó ekki. Lág laun og lágt orkuverð eru ekki nægilegt framlag til að heilla hingað álfurstana. Við virðumst líka verða að slá af kröfum um mengunarvarnir. Viljum við fá hingað álver verðum við að sætta okkur við meiri mengun en ásættanleg þykir í nálægum löndum. Það er á þessum punkti sem menn hika við og spyrja hvort þetta sé nú rétt stefna. Þegar það svo bætist ofan á að hugmyndin er að setja umrætt álver niður í blómlegu landbúnaðarhéraði þá er okkur nóg boðið og við spyrjum: Hvað í ósköpunum réð þessu staðarvali? Ég heyrði reyndar þá skýringu að forstjóri Columbia-álversins hefði komið hingað til lands til að velja stað undir álverið sitt. Honum var boðið upp á Helguvík, Keilisnes, Straumsvík og Grundartanga og hann valdi að sjálfsögðu það síðastnefnda vegna þess að þar væri fallegast. Næstum væri þar jafnfallegt og heima hjá honum sjálfum. Svo hefði fleirum farið. Sumum kann að finnast að þessi aðferð til að finna stað undir mengandi stóriðju sé ekki fram úr hófi skynsamleg.

Við höfum lagt í það umtalsvert fé að skapa þá ímynd Íslands að hér sé að finna óspillta náttúru, hreint loft, ómengaðar laxveiðiár o.fl. í þá veru sem gerir eitt land heillandi í augum þeirra ferðamanna sem við sækjumst eftir að leggi leið sína hingað til lands. Ferðamenn hvaðanæva að hafa lagt hingað leið sína til að komast í tæri við ósnortna náttúru. Við höfum líka lagt í það fé og mikla fyrirhöfn að reyna að stuðla að lífrænni ræktun sem sé söluvænni en önnur framleiðsla. Í þeirri stefnu er líka fé að finna. Þar er líka að finna atvinnutækifæri. Væntanlegt álver er ekki heppilegur nágranni fyrir slíkan atvinnurekstur. Þegar um er að ræða annars vegar mengandi stóriðju og hins vegar lífræna og vistvæna ræktun og ferðaþjónustu verða menn að velja. Fyrir nokkrum áratugum þótti e.t.v. sjálfsagt að virkja og byggja nánast hvar sem var. Nú er önnur afstaða. Ferðamannaþjónusta, lífræn og vistvæn ræktun og óspillt náttúra eru auðlindir ekki síður en sú orka sem e.t.v. er seljanleg til stóriðju.

Hæstv. forseti. Við Íslendingar eigum víða örfoka strendur fyrir opnu hafi og við kvörtum yfir fólksflótta til suðvesturhornsins. Það lengsta sem hæstv. ríkisstjórn hefur komist í að hamla gegn honum er að flytja Landmælingar ríkisins upp á Akranes. Væri til of mikils mælt, í ljósi þeirra staðreynda, að tekin yrði önnur og skynsamlegri ákvörðun um staðsetningu fyrirhugaðs álvers?