Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:57:00 (2791)

1997-01-28 15:57:00# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:57]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Á elleftu stundu þegar nýtt álver er í burðarliðnum rís upp mikil óánægja með staðarval þrátt fyrir mikinn og langvinnan undirbúning heimamanna til að ná slíkum atvinnukostum til sín. Hvers vegna er slíkt að gerast? Það er ekki nema ein skýring á því í mínum huga og það er mengun sem hefur komið frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Staðreyndin er nefnilega sú að járnblendiverksmiðjan á Grundartanga hefur ekki staðið undir þeim væntingum um mengunarvarnir sem við mátti búast af þeim aðilum sem þar halda um stjórnvölinn, því er nú verr og miður. Þar hefur eflaust ýmislegt komið til. Ég held að fyrst og fremst sé það slælegt eftirlit þeirra sjálfra og hugsanlega opinberra aðila eða þá að reglur eru ekki nógu skýrar gagnvart þessari stóriðju sem í rauninni er mjög hagkvæm íslensku þjóðarbúi þegar á heildina er litið. Þess vegna held ég að það sé brýnast í þessari umræðu að gera ráð fyrir því að mengunarvörnum hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga verði komið í það horf að viðunandi sé.

Er ástæða til að óttast álver? Menn geta velt því fyrir sér líka. Eru mengandi þættir álvers svo geigvænlegir að það sé stórhættulegt hverju búi að hafa það nálægt sér? Ef við lítum á þá þróun sem hefur orðið í mengunarmálum álvers þá getum við séð svipaða þróun hjá álverinu í Straumsvík og hjá öðrum atvinnurekstri á landinu. Það er að mengun fer síminnkandi, sem betur fer. Auðvitað fylgir öllum atvinnurekstri einhver mengun. En hjá álverinu í Straumsvík hefur til að mynda sú þróun átt sér stað að rykmengun, sem var árið 1982 um 1.400 tonn er árið 1996 um 100 tonn. Menn sjá að þarna hefur orðið gríðarleg breyting sem átti sér að mjög miklu leyti stað árið 1992 þegar lok voru sett á kerin í álverinu í Straumsvík.

Ef við lítum á flúoríð þá fóru árið 1982 um 680 tonn af því út í loftið en árið 1996 fara 130 tonn af sama efni út í loftið. Að þessu leyti sjáum við gríðarlega þróun til betri vegar í þessu máli einnig. Brennisteinstvísýringur hefur staðið í stað. Sá þáttur mengunar veldur súru regni sem kunnugt er og af sérfræðingum íslenskum er það ekki talið skaða gróður á Íslandi vegna þess hversu basískur jarðvegur á Íslandi er. Þess vegna hafa okkar sérfræðingar ekki talið nauðsynlegt að koma upp vothreinsibúnaði við álverið í Straumsvík.

[16:00]

Ef við lítum á aðra þætti sem yfirmenn álversins í Straumsvík hafa skoðað þá eru tekin gróðursýni í kringum álverið í mjög stórum radíusi sem nær í raun allt upp í Hvalfjörð. Það hafa verið tekin samanburðarsýni á nákvæmlega sömu stöðum alveg frá árinu 1968 eða ári áður en álverið fór af stað. Það er tekið sýni í birki, í laufi, í grasi og í mold. Niðurstöðurnar eru þær að 1996 mælist ekki meiri mengun innan þessa radíuss í þessum gróðri en 1968, ári áður en álverið tók til starfa. Það er staðreynd málsins. Þess vegna held ég að að sé óhætt að draga þá ályktun af því sem gerst hefur í álverinu í Straumsvík að þetta sé ekki hættuleg starfsemi og það sé auðvelt að koma í veg fyrir að starfsemin skaði umhverfi sitt.

Þess vegna vil ég segja það hér, herra forseti, að í mínum huga er það alveg klárt að slík starfsemi þarf að uppfylla ströngustu kröfur um mengunarvarnir sem hægt er að fá og boðið er upp á í heiminum í dag. Ég mun stuðla að því að innan umhvn., þar sem ég á sæti, verði farið faglega yfir þessi mál eins og ég geri ráð fyrir að aðrir nefndarmenn vilji gera. Ef við náum þeim niðurstöðum sem hafa orðið í Ísal eða hjá álversstarfsmönnum þá þurfum við ekkert að óttast með staðsetningu uppi í Hvalfirði og íbúar í Kjósarhreppi eða annars staðar eiga ekki að þurfa að óttast rykmengun eða sýnilega mengun umfram það sem gerist í álverinu í Straumsvík sem ég þekki sjálfur af því að keyra þar fram hjá tvisvar á dag að er sáralítil sem engin.