Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:02:39 (2792)

1997-01-28 16:02:39# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa umræðu og vil jafnframt fagna þeirri bylgju, mér liggur við að segja vakningu sem orðið hefur í tengslum við þetta mál í kjölfar þess að íbúar við Hvalfjörð og ekki síst Kjósverjar hafa risið upp til varnar umhverfi sínu.

Ég spái því, herra forseti, að við séum frekar að sjá upphaf heldur en endi af umræðum og breyttum viðhorfum í þessum efnum. Hvalfjörðurinn er að sönnu viðkvæmur staður en það munu verða fleiri árekstrar af sama toga, og víðar um land, ef svo heldur sem horfir með atvinnuuppbyggingu í landinu. Það verður ekki hjá því komist að árekstrum mun fjölga milli vaxandi stóriðjuuppbyggingar annars vegar og breyttra viðhorfa til landnytja og varðveislu óspilltrar náttúru og ómengaðs umhverfis hins vegar.

Þetta dregur, herra forseti, athyglina að því að í raun og veru vantar hér á Íslandi alla heildarstefnu í þessum efnum. Það vantar framtíðarstefnu um nýtingu landsins, um það að hve miklu leyti við ætlum að byggja á varðveislu ósnortinnar náttúru, ferðaþjónustu, lífrænum og vistvænum búskapar- og atvinnuháttum í landinu annars vegar og að hve miklu leyti við ætlum að taka inn á okkur mengandi stóriðjustarfsemi hins vegar. Ég er ekki í þeim hópi, herra forseti, sem útilokar iðnaðaruppbyggingu þó stóriðja sé og jafnvel ekki málmbræðslu af því tagi sem hér á í hlut. Ég segi hins vegar alveg hiklaust: Við erum á rangri braut, Íslendingar, ef við ætlum að byggja okkar framtíðaratvinnusköpun á þessu. Þetta eru atvinnugreinar gærdagsins. Mengandi stóriðjustarfsemi er á útleið. Hátækni- og þekkingariðnaður er það sem á við. Og það er dæmigert í þessu máli að álverið sem á að reisa á Grundartanga er verið að taka niður í Þýskalandi og loka því. Við erum sem sagt að verða eins konar ruslakista fyrir atvinnu sem aðrir eru að ýta af höndum sér. Það er ekki mjög féleg framtíðarsýn, herra forseti, að við skulum sitja uppi með soraiðnaðinn af meginlandi Evrópu en tala í hinu orðinu um það að við ætlum að byggja framtíðina hér á ferðaþjónustu og öðrum slíkum greinum.

Ég minni á, herra forseti, að í sambandi við allar þessar stóriðjuframkvæmdir, sem hæstv. iðnrh. er að boða með viðræðum út og suður við hina þessa aðila um fabrikku hér og fabrikku þar, fylgja virkjanir. Því fylgja ákvarðanir um stórfelldar umhverfisbreytingar á hálendi landsins m.a. og brjálæðustu áformin af því tagi eins og vatnaflutningarnir miklu á norðausturhálendinu munu valda borgarastyrjöld ef eftir á að ganga. Þvílík umhverfisröskun er þar á ferðinni.

Hér, herra forseti, vísa margir til gagnrýninnar varðandi staðsetningu járnblendiverksmiðjunnar á sínum tíma en telja það síðan sérstök rök í málinu hversu vel það allt saman hafi gengið. Hafa þeir menn sem svo tala þá ekki orðið varir við óánægjuna með einmitt mengun frá þeirri starfsemi? Hefur ekki komið á daginn að það er ekki nóg að hafa fínan hreinsibúnað í verksmiðjunni ef hann er ekki notaður? Ég held að menn ættu kannski að fara pínulítið varlega í að vitna alveg sérstaklega til þess hversu fagurt fordæmi væri þar að finna.

Núverandi ríkisstjórn er mjög sérkennilega sett í þessu máli. Annars vegar kemur hæstv. samgrh. með geysilega áferðarfalleg plön um ferðaþjónustu og vistvæna og græna ferðamennsku og guð má vita hvað, sést síðan ekki í dag þegar Framsfl. mætir með sína ráðherra, sem einnig eru nokkuð sérkennilega settir í þessu, svo ekki sé minnst á ósköpin að stórvinur minn, hæstv. landbrh. og umhvrh., á í dálítilli innri baráttu, trúi ég, þegar hann er að þjóna tveimur herrum og með iðnrh. í næsta sæti við sig sem eins og kunnugt er er með alls konar skrifstofur og markaðsfulltrúa flengríðandi um heiminn, auglýsingar í stórblöðum hversu ákjósanlegt sé að koma í lágu orkuna og lágu launin uppi á Íslandi og svo séu menn ekkert sérstaklega uppteknir af mengunarreglugerðum þar.

Nei, herra forseti. Þetta mál verðskuldar sannarlega þá umræðu sem um það hefur vaknað og auðvitað er þessi verksmiðja á skökkum stað ef hún átti að rísa á annað borð og þó ekki stærri álbræðsla en þetta í fyrsta áfanga. Þá átti þó ekki væri af neinu öðru en byggðapólitískum ástæðum að velja henni heppilegan stað einhvers staðar út við ströndina fyrir norðan eða austan.

Að síðustu, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að á víðfrægum miðstjórnarfundi Alþb. var nokkuð fjallað um þetta mál og ég tel rétt að það komi hér fram í umræðunni að um þetta var ályktað eftirfarandi:

,,Miðstjórnin gagnrýnir harðlega framgöngu stjórnvalda við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda á Grundartanga í Hvalfirði þar sem um viðkvæmar aðstæður er að ræða. (Forseti hringir.) Sérstaklega er ámælisvert að ekki skuli gerðar kröfur um fullkomnustu mengunarvarnir og a.m.k. jafnströng mörk um losun mengunarefna og í nágrannalöndunum.``

Herra forseti. Þetta dregur kjarnann saman í því sem segja þarf. Það er auðvitað neðan við allar hellur að íslensk náttúra sé sett á útsölu til þess að laða hingað atvinnustarfsemi sem aðrir eru að ýta af höndum sér.