Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:13:30 (2794)

1997-01-28 16:13:30# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:13]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Umhverfismál hafa frá upphafi verið eitt af megináherslusviðum Kvennalistans eins og vel hefur komið fram í okkar málflutningi á Alþingi í gegnum tíðina. Í stefnuskrá okkar segir m.a.:

,,Umhverfisspjöll, mengun, stríðsátök og ójöfnuður ógna öllu lífi á jörðinni. Kvennalistinn vill snúa við blaðinu og stefna á sjálfbært þjóðfélag þar sem þegnarnir virða móður jörð og rétt komandi kynslóða til lífs og velfarnaðar.``

Eins og fram kom í málflutningi málshefjanda fyrr í dag er ýmislegt gagnrýni vert að mati okkar kvennalistakvenna vegna fyrirhugaðrar álverksmiðju á Grundartanga. Þar ber fyrst að nefna atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar almennt með ofuráherslu á mengandi stóriðju án þess að séð verði að gerðar séu ýtrustu kröfur um mengunarvarnir. Og jafnvel þó að þær væru gerðar mun álver blása út miklu af koltvísýringi og það stríðir gegn þeim samþykktum sem við höfum þegar gert á alþjóðavettvangi. Þessi atvinnustefna er auk þess gagnrýni verð vegna þess að störfin sem skapast eru lítið stunduð af konum sem nú eru víða að missa atvinnu sína vegna stöðu fiskvinnslunnar víða um landið. Að okkar mati væri vænlegra að hafa fjölbreytilegri atvinnustefnu sem tryggir störf bæði fyrir konur og karla.

Þessi atvinnustefna, áhersla á mengandi stóriðju er mjög varasöm og fer ekki saman við þá ímynd sem margir telja okkar dýrmætustu auðlind og margir hafa gert að umræðuefni hér í dag, nefnilega ímynd hreins lofts og fagurs lands, tærs lofts og ósnortinnar náttúru. Þessi ímynd er enn möguleg hér og hún gæti orðið einstök í heiminum og því erfitt að verðleggja hana. Þessi ímynd er lykill að lífrænni ræktun og grænni ferðamennsku.

[16:15]

Bæði staðarvalið og mengunarvarnarkröfurnar vegna fyrirhugaðrar verksmiðju ógna þessari ímynd og því tek ég undir þau sjónarmið að það verði að gera meiri mengunarkröfur og finna þessari verksmiðju annan stað ef hún á að rísa.

Þau kröftugu mótmæli sem íbúar í nágrenni við Hvalfjörð hafa haft uppi að undanförnu og viðbrögð fólksins í landinu við þeim sýna að mínu mati að umhverfismál eru að fá mjög vaxandi vægi í þjóðfélaginu. Til dæmis er umræðan nú af allt öðrum toga en þegar álverið í Straumsvík var stækkað og það má að mínu mati skýra með ýmsu. Meðal annars var þá til afgangsorka og nú er efnahagsástandið skárra en þá. Þessi umskipti eru mjög ánægjuleg og verða vonandi til þess að stjórnvöld fái meira aðhald frá almenningi á þessu sviði í framtíðinni.

En það er annað atriði þessa máls sem ég vil gera að umræðuefni hér, herra forseti, og það er sú gagnrýni sem fram hefur komið á meðferð íslenskra stjórnvalda á málinu varðandi umhverfismatið og fyrirhugaða veitingu starfsleyfis. Bent hefur verið á að hlutlausan aðila vanti, óháðan aðila sem allir málsaðilar geti treyst til að gera umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda af þessu tagi. Í því sambandi vil ég vekja athygli á nýlegri tillögu um stefnumörkun í umhverfismálum frá umhverfismálanefnd háskólaráðs Háskóla Íslands sem samþykkt var í háskólaráði 27. júní 1996. Tillagan gengur út á að komið verði á fót sérstakri rannsóknarstofnun, umhverfisstofnun Háskóla Íslands. Eitt af fyrirhuguðum verkefnum þessarar stofnunar er ráðgjöf og upplýsingar í umhverfismálum. Það mætti leita til slíkrar stofnunar í alls konar ágreiningsmálum sem upp koma á sviði umhverfismála. Ég tel að þessi stofnun eigi meiri möguleika á að geta talist óháður aðili en aðrar stofnanir sem hér eru, með fullri virðingu fyrir Hollustuvernd sem ég tel að vinni gott verk. Hollustuvernd fer eftir þeim lögum sem eru í gildi og getur ekki talist hlutlaus aðili.

Ég vil að lokum, herra forseti, óska íbúum Hvalfjarðar til hamingju með þann árangur sem þeir hafa þegar náð og vona að þetta verði til þess að verksmiðjan verði flutt og að meiri mengunarkröfur verði gerðar. Þetta er gott dæmi um það að fulltrúalýðræðið dugar ekki. Við þurfum að taka upp beinar atkvæðagreiðslur fólks og meiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil taka undir að það er atvinnustefna gærdagsins að taka upp mengandi stóriðju. Hlustum á fólkið. Ríkisstjórnin fær ekki orma í eyrun við það.