Breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:44:05 (2799)

1997-01-28 16:44:05# 121. lþ. 56.96 fundur 161#B breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:44]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þennan dag líða svo að mér gefist ekki kostur á að beina ákveðinni spurningu til hæstv. umhvrh. og það er út af tilefni sem gafst í umræðunni fyrr í dag. Ég gat ekki beint spurningunni til hans þá vegna þess að þá var umsaminn ræðutími og umsamin ræðulok. Því verð ég að bregða á það ráð að gera það nú. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég gagnrýni hvorki hæstv. umhvrh. né hæstv. iðnrh. fyrir þau vinnubrögð sem þeir hafa haft í álversmálum og afstaða Alþfl. hefur í engu breyst í þeim efnum. Við ræddum það síðast á flokksþingi okkar í nóvembermánuði. En það kom mér mjög á óvart þegar einn þingmaður Framsfl., sem tók þátt í þessum umræðum fyrir hönd flokksins, lýsti því yfir að sú framtíðarsýn sem flokkurinn hefði fyrir augum væri sú sýn sem kemur fram í kvæðinu Tínarsmiðjur, eftir Einar Benediktsson. Það vill svo til að ég þekki nokkuð til þess sem Einar Benediktsson hefur kveðið og þar á meðal til kvæðisins Tínarsmiðjur. Ég vil leyfa hæstv. umhvrh. að heyra fyrsta erindið og vil spyrja hann að því hvort það sé rétt að hér sé verið að lýsa framtíðarsýn Framsfl. hvað varðar umhverfi Hvalfjarðar. En fyrsta erindið í kvæðinu Tínarsmiðjur er svona, virðulegur forseti:

[16:45]

  • Eldar brenna yfir Tíni,
  • eins og sterkir vitar skíni.
  • Myrkrið ljósin magnar óðum.
  • Málmlog gjósa af hverri stó.
  • Skolgrátt fljótið fram í sjó
  • flýtur allt í rauðum glóðum,
  • eins og járn úr hundrað hlóðum
  • herðir sig í straumsins þró.
  • Er það rétt, herra forseti, að þetta sé framtíðarsýn Framsfl. um umhverfi Hvalfjarðar?

    (Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að efni þessarar umræðu eru breytingar umhvrh. um reglugerð um mengunarvarnir.)