Breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:52:22 (2802)

1997-01-28 16:52:22# 121. lþ. 56.96 fundur 161#B breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:52]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er ákaflega athyglisvert mál á ferðinni og í rauninni háalvarlegt eins og hv. málshefjandi hefur lýst og rakið raunar tvívegis í umræðum hér á Alþingi. Ég vil þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir árvekni hans og sömuleiðis hæstv. umhvrh. fyrir viðbrögð hans þó þau hefðu vissulega þurft að koma fyrr. Það er ekki traustvekjandi að atburðarásin skyldi þurfa að vera með þeim hætti sem raunin var. Þessi atburðarás sýnir svo ekki verður um villst að ekki veitir af að halda vöku sinni svo hæstv. ráðherrar misbeiti ekki því valdi sem hv. Alþingi veitir þeim oft og einatt með heimild til setningar reglugerðar um ýmis mál. Slíkar reglugerðir verða að sjálfsögðu að hafa lagastoð og embættismenn verða að ganga úr skugga um að svo sé.

Þetta mál er skólabókardæmi um vond vinnubrögð en ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur séð að sér. Ég ætla rétt að vona að bæði hæstv. ráðherra og embættismenn dragi réttan lærdóm af þessu máli og hv. þingmenn hljóta að gera það líka og ég vil taka undir hvatningarorð hv. síðasta ræðumanns um að umhvn. láti málið til sín taka.