Almenningsbókasöfn

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 17:01:08 (2805)

1997-01-28 17:01:08# 121. lþ. 56.3 fundur 238. mál: #A almenningsbókasöfn# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Almenningsbókasöfn eru meðal elstu og jafnframt mikilvægustu menningarstofnana á Íslandi. Um aldurinn er þá miðað við að rætur þeirra liggja í lestrarfélögum sem rekja upphaf sitt hér á landi aftur til loka 18. aldar. Fyrstu lög um almenningsbókasöfn með þeirri yfirskrift voru sett árið 1955. Áður voru í gildi lög um lestrarfélög og kennslukvikmyndir, að stofni til frá 1937. Í þeim lögum var gert ráð fyrir að lestrarfélög utan þeirra kaupstaða eða kauptúna þar sem amts-, bæjar- eða sýslubókasöfn væru starfandi nytu styrks úr sérstökum styrktarsjóði lestrarfélaga sem fjármagnaður var með álagi á skemmtanaskatt. Áskilið var a.m.k. jafnhátt styrkframlag frá hreppi eða sýslu. Hliðstæð framlög til bókasafna í kaupstöðum voru á þessum tíma veitt í fjárlögum án þess að sérstökum lagaákvæðum um slíkan stuðning væri til að dreifa. Eftir að almenningsbókasafnalögin frá 1955 tóku gildi var gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði til bókasafnanna samkvæmt ákveðnum reglum á móti framlagi frá sveitarfélögunum. Sú skipan hélst í nýjum lögum sem sett voru 1963 en árið 1976 voru enn sett lög um almenningsbókasöfn, þau sem enn eru í gildi lítið breytt, lög nr. 50/1976. Með þeim var sú breyting gerð að ákvæði um fjárframlög úr ríkissjóði til safnanna voru felld niður og kostnaðarleg ábyrgð á rekstri þeirra, annarra en stofnanasafna, falin sveitarfélögunum að fullu. Þessari skipan er ekki fyrirhugað að breyta með frv. því sem hér flutt þótt gert sé ráð fyrir tímabundnum framlögum úr ríkissjóði til að stuðla að því að almenningsbókasöfn geti notfært sér kosti nýrrar upplýsinga- og samskiptatækni.

Margt hefur breyst á þeim liðlega 20 árum sem liðin eru frá því að núgildandi lög um almenningsbókasöfn voru sett. Óvíða í samfélaginu hafa breytingar og framfarir verið örari og víðtækari en á því sviði sem kennt er við upplýsingatækni. Þar er komið inn á starfsvettvang almenningsbókasafna og því eðlilegt að ástæða þyki til að huga að því hvort sá lagarammi sem þeim er búinn hæfi þessum breyttu aðstæðum. Önnur atriði sem ýta undir slíka endurskoðun eru m.a. sameining sveitarfélaga og aukið samstarf þeirra á annan hátt sem víða breytir rekstrargrundvelli almenningsbókasafna og löggjöf um Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn sem leggur þessari öflugu stofnun í nýrri Þjóðarbókhlöðu skyldur á herðar gagnvart öðrum bókasöfnum í landinu.

Í athugasemdum við frv. það sem hér er flutt er gerð nánari grein fyrir tildrögum þess. Þar er m.a. bent á tengsl vinnunnar að undirbúningi frv. við þá stefnumörkun um nýtingu nýrrar upplýsingatækni sem birt hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar og menntmrn. Í því samhengi hljóta bókasöfn að gegna mjög mikilvægu hlutverki, ekki síst til að stuðla að því að allur almenningur eigi þess kost að færa sér möguleika upplýsingatækninnar í nyt.

Nú skal stuttlega vikið að helstu breytingum og nýmælum sem í frv. felast miðað við gildandi lög. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við frv. og einstakar greinar þess.

Í 1. gr. frv., þar sem hlutverk almenningsbókasafna er skilgreint, er lögð áhersla á þátt þeirra sem alhliða upplýsingastofnana er veiti aðgang að nýjustu tölvutækni til að afla margháttaðra gagna. Dregið er úr lögbundinni skiptingu almenningsbókasafn í mismunandi tegundir en reynt að búa í haginn fyrir skipulag sem stuðlað geti að myndun öflugra umdæmissafna. Það hefur verið talinn einn helsti annmarkinn á núverandi skipan almenningsbókasafna að bókasafnsumdæmi væru of mörg og smá til að svonefnd miðsöfn, sem ætlað er að veita víðtæka þjónustu hvert í sínu umdæmi, hefðu nægilegt bolmagn til að rækja hlutverk sitt. Að breytingu í þessu efni þarf að vinna í samráði við samtök sveitarfélaga svo sem rakið er í ítarlegum athugasemdum við 5. og 6. gr. frv.

Í gildandi lögum eru nákvæm og talsvert margbrotin ákvæði um lágmarksframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna, mismunandi eftir tegund safns og tengslum sveitarfélags við það. Frv. gerir ráð fyrir að þessi ákvæði verði felld brott en mælt er fyrir um að framlög skuli ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun hvers sveitarfélags.

Í 1. gr. frv. er kveðið ótvírætt á um lagaskyldu sérhvers sveitarfélags til að standa að bókasafnsþjónustu. Eðlilegt er hins vegar að sveitarfélögin beri sjálf fulla ábyrgð á að þessu hlutverki sé sinnt á viðunandi hátt eins og öðrum mikilsverðum verkefnum sem þeim eru falin að lögum.

Í lögum um Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn kemur skýrt fram að þeirri stofnun er ætlað að vera öðrum bókasöfnum í landinu haukur í horni. Meðal hlutverka þess er þannig samkvæmt lögunum að stuðla að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veita þeim faglega ráðgjöf og eiga við þau sem víðtækast samstarf. Í frv. er þetta ráðgjafar- og samstarfshlutverk áréttað með skírskotun til laganna um Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn. Þáttur þess hlýtur að vera mikilvægur til að tryggja eftir föngum að bókasafnskerfi landsins starfi sem samvirk heild en á það leggur frv. þunga áherslu.

Gert er ráð fyrir að niður falli ákvæði um sérstakan fulltrúa í menntmrn. sem annist málefni almenningsbókasafna. Menntmrn. fer samkvæmt frv. með yfirstjórn þeirra mála en ekki þykir ástæða til að lögbinda sérstaka starfsskipan í ráðuneytinu á þessu sviði. Með hliðsjón af breyttum aðstæðum kynni að þykja hentugt að fela öðrum aðilum sum þeirra verkefna sem ráðuneytið hefur nú með höndum á sviði almenningsbókasafna, t.d. öflun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um starfsemi safnanna enda gerir frv. ráð fyrir slíkum möguleika. Almennt er og ástæða til að huga að því hvernig þjónustu við söfnin verði best fyrir komið að því leyti sem forsendur eru til að ríkið eigi þar hlut að máli.

Ákvæði frv. er lúta að menntunarkröfum til starfsmanna almenningsbókasafna eru nokkuð sveigjanlegri en í gildandi lögum en lögð áhersla á að leitast við að tryggja söfnunum starfsfólk með sérmenntun sem hæfir verksviði þeirra.

Loks er að geta ákvæðis til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir árlegu framlagi úr ríkissjóði um fimm ára skeið, eigi minna er 4 millj. kr. á ári, til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet. Hér er byggt á tillögu nefndar á vegum menntmrn. sem falið var að kanna hvernig þessum markmiðum yrði náð. Einnig var höfð hliðsjón af tillögum sem fram komu í tengslum við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Í álitsgerð sem varðar m.a. þátt bókasafna var reifuð tillaga um svonefnd kjarnasöfn sem yrðu fyrirmynd annarra bókasafna um beitingu upplýsingatækni í þjónustu við almenning. Um yrði að ræða samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og mismunandi söfn á hverjum tíma.

Ljóst er að söfnin eru mjög misjafnlega á vegi stödd í þessum efnum og þeir fjármunir sem frv. gerir ráð fyrir að ríkið leggi af mörkum leysa ekki allan vanda. Eðlilegt er að í reglum um úthlutun fjárins verði m.a. kveðið á um mótframlög frá rekstraraðilum safns sem skilyrði fyrir styrkveitingu. Með slíku samstarfi ætti að vera unnt að koma talsverðu til leiðar á því árabili sem ákvæðið miðast við. Ætlast er til að úthlutun framlaga af því fé sem hér um ræðir verði tekin að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar um málefni almenningsbókasafna. Um skipan og hlutverk þeirrar nefndar er mælt í 13. gr. frv. en ekki í þeirri 14. eins og því miður hefur misritast í ákvæði til bráðabirgða og þarf sú villa leiðréttingar við í þingmeðferð frv.

Sérstök ástæða er til að víkja að 14. gr. frv. sem fjallar um greiðslur úr ríkissjóði í Rithöfundasjóð Íslands fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í almenningsbókasöfnum. Eins og fram kemur í athugasemdum við þessa grein miðast orðalag hennar við að tryggja óbreytta stöðu meðan beðið er niðurstöðu af starfi nefndar sem menntmrn. skipaði í sumar sem leið til að kanna forsendur fyrir breytingum á gildandi lagaákvæðum um þóknun vegna afnota bóka í bókasöfnum. Nefnd þessi hefur nú skilað áliti sínu og tillögum og hef ég fengið heimild ríkisstjórnarinnar til að leggja frv. til laga um bókasafnssjóð höfunda fyrir Alþingi og er frv. nú til meðferðar í þingflokkum stjórnarflokkanna en samkvæmt því frv. mundi þessi grein, sem nú er 14. gr. í frv. um almenningsbókasöfn, falla niður og ný lagaákvæði leysa hana af hólmi, lagaákvæði um bókasafnssjóð höfunda, þar sem ekki aðeins væri miðað við að höfundar fagurbókmennta fengju þóknun vegna bóka í bókasöfnum heldur einnig höfundar fræðirita og kennslugagna og höfundar mynda og tónhöfundar sem tengjast bókaútgáfu. En þetta frv. mun væntanlega verða lagt fram á Alþingi innan tíðar.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir höfuðþáttum í þessu frv. til laga um almenningsbókasöfn sem tekur mið af breyttum aðstæðum í umhverfi safnanna án þess að hróflað sé við þeirri meginskipan sem gildir, að sveitarfélögin reka bókasöfnin en hér er mælt með því að ríkisvaldið leggi nokkuð af mörkum á næstu árum til þess að auðvelda bókasöfnunum að tileinka sér hina nýju upplýsingatækni. Jafnframt hef ég gert grein fyrir því að á næstunni mun verða lagt hér fram á Alþingi frv. til laga um bókasafnssjóð höfunda sem mun, ef það verður samþykkt, verða til þess að það frv. um almenningsbókasöfn sem ég hef kynnt breytist, þ.e. ein grein í því frv.