Almenningsbókasöfn

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 17:12:16 (2806)

1997-01-28 17:12:16# 121. lþ. 56.3 fundur 238. mál: #A almenningsbókasöfn# (heildarlög) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég met það svo að það frv. sem hér liggur fyrir sé fyllilega í takt við tímann og eðlilegt að þau ákvæði sem þar eru til breytinga á lögunum frá 1976 komi til umfjöllunar og verði síðan lögfest að aflokinni vandaðri skoðun hv. menntmn.

Ég er sammála því markmiði sem mér sýnist að skíni hér í gegnum frv. að bókasöfn ,,þróist í alhliða upplýsingamiðstöðvar sem tryggi öllum viðskiptavinum sínum greiðan aðgang að upplýsingum á tölvutæku formi``, eins og stendur í athugasemdum við lagafrv.

Það kemur fram að lögð sé áhersla á það markmið að bókasöfnin verði alhliða upplýsingastofnanir þar sem almenningur eigi kost á að nýta m.a. nýjustu tölvutækni til að afla upplýsinga og margháttaðra gagna, ekki bara til skemmtunar heldur einnig til menntunar og til hagsbóta fyrir atvinnulífið. Ég held þess vegna að það sé alveg á sínum stað, sem ráðherra kynnti í umræðunni, að ákvæði um þóknanir til rithöfunda fari út úr lögum um almenningsbókasöfn en fari inn í sérstök lög sem hann nefnir hér lög um bókasafnssjóð höfunda vegna þess að það er augljóst að það verða ýmsir fleiri en rithöfundar sem eiga hagsmuna að gæta varðandi notkun hugverka sinna ef þetta frv. verður að lögum. Ég held líka að það sé til bóta að einfalda flokkun almenningsbókasafna frá því sem gert er í núgildandi lögum og vissulega eru mörg þeirra safna sem starfandi eru í landinu ekki til mikilla átaka sökum smæðar og þess hversu fáir standa að þeim.

Mér sýnast ákvæði þessa frv. heldur ýta undir það að sveitarfélög eigi með sér samstarf um söfn og ég er alveg viss um það að ákvæðið til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir tímabundnu átaki ríkisins til þess að efla söfnin muni auka þeim metnað og kjark til þess að takast á við ekki bara uppbyggingu og sameiningu safnanna heldur líka að ráðast í það að skoða umvherfi sitt, skoða þá þjónustu sem þau hafa veitt og þá þjónustu sem þau geta veitt ef þau taka þátt í þeirri uppbyggingu sem hér er fyrirhuguð.

[17:15]

Ég þykist vita að einhverjir hrökkvi við þegar þeir sjá að til stendur að afnema þau ákvæði í núgildandi lögum sem eru um lágmarksframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna. Það hefur jafnan gerst þegar ríkið hefur dregið til sín höndina og ekki lengur skammtað sveitarfélögunum umfang þess fjármagns sem lagt skuli til tiltekinna verkefna og þá einlægt borið á þeirri tortryggni að sveitarfélögunum sé ekki treystandi. Reynslan af slíkum ákvæðum hygg ég að sé hins vegar sú að þetta hefur ekki reynst lágmarksframlag heldur hefur orðið sú tala sem greidd hefur verið eins og lágmarksframlag hefur reyndar tilhneigingu til að verða. Ég er á þeirri skoðun að reynsla sú sem við höfum af því að sveitarfélögin taki verkefni alfarið að sér og taki ákvarðanir sjálf um þá peninga sem til þeirra eiga að fara, sé góð og það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því þótt ákvæði um lágmarksframlag séu afnumin. Ég held að þau séu í mjög eðlilegum takti við sjálfstæði sveitarfélaganna sem sífellt er verið að hlúa að og byggja upp.

Það liggur fyrir að ef þetta frv. verður að lögum þá verði ekki sérstakur fulltrúi í menntmrn. sem annist málefni almenningsbókasafna. Ég geri ráð fyrir að skoðað verði í hv. nefnd hvort það er heppilegt. Aðalatriðið er að menntmrn. fer áfram með yfirstjórn málanna. Verkefnið verður þar áfram. Það er álitamál á hverjum tíma hvernig verkefnum er fyrir komið. En ég held að það þurfi einfaldlega að skoða hvort það fyrirkomulag sem hér er boðað er nákvæmlega það besta og hv. nefnd muni gera það.

Ég fagna sérstaklega bráðabirgðaákvæðinu. Ég held að það muni örva sveitarfélögin til dáða. Ég held að það sé kannski lykillinn að því sem ég í upphafi máls míns taldi að væri meginmarkmið eða meginstoðir þessa frv., þ.e. að gera þau að almennum upplýsingaveitum og það er vel. Ég á sæti í hv. menntmn. sem kemur til með að fjalla frekar um frv. þannig að ég ætla ekki að varpa hér fram spurningum en vildi einungis setja fram þessar hugleiðingar eftir að hafa lesið frv. yfir og hlýtt á mál hæstv. ráðherra.