Upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 17:35:32 (2810)

1997-01-28 17:35:32# 121. lþ. 56.6 fundur 192. mál: #A upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hér er hreyft merkilegu máli og ágætu sem hv. menntmn. mun skoða að sjálfsögðu. Ég vil aðeins fá að koma því að hér í þessum umræðum því að hv. þm. vék sérstaklega að háskólastiginu að ég hef fullan hug á að leggja fram á vorþinginu frv. til laga um háskólastigið, rammalöggjöf um háskólastigið sem ég tel nauðsynlegt að sé fyrir hendi, m.a. með hliðsjón af hugmyndum eins og þeim sem hér hafa verið kynntar þar sem verið er að ræða um að háskólar þróist öðruvísi heldur en hingað til. Til þess þurfum við að hafa lagaramma þannig að menn átti sig á því hvaða kröfur eigi að gera og hvernig sé best að standa að því að skipuleggja háskólanám. En sú bylting er að verða fyrir utan afskipti okkar stjórnmálamannanna sem við getum markað með ályktun hér á þingi eða lagasetningu að fjarlægðir eru að verða að engu þegar háskólanám er annars vegar og steinsteyptar byggingar eða miðstöðvar gegna minna hlutverki nú en áður heldur en þekkingin og vitneskjan og hæfileikinn til að miðla henni með öðrum hætti heldur en í kennslustofum eða á einhverjum ákveðnum fræðslumiðstöðvum.

Við vorum áðan að ræða frv. til laga um almenningsbókasöfn þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að almenningsbókasöfnin fái nýtt og betur skilgreint hlutverk sem upplýsingamiðstöðvar með hinni nýju tækni. Og ég sé það fyrir mér að slík söfn, þar sem aðgangur verður að boðveitum sem nýta hina nýju upplýsingatækni, geti orðið þær miðstöðvar sem hér var talað um, að unnt verði að byggja upp á hverjum stað í landinu einhverja miðstöð þar sem menn geta sótt upplýsingar. En einnig eiga þeir að geta, hver um sig með tæknibúnaði frá sínum heimilum, stundað fjarnám jafnt frá háskólum og framhaldsskólum eins og nú er. Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur unnið brautryðjendastarf hér á landi á undanförnum missirum í fjarnámi á framhaldsskólastigi. Vöxturinn þar er mun meiri en menn gerðu sér grein fyrir og er æskilegt að leggja fram á hinu háa Alþingi skýrslu um það efni og greinargerð hvernig það nám hefur þróast til að menn átti sig á því hvaða hljóðláta bylting hefur átt sér stað á framhaldsskólastiginu. Það verður að segjast eins og er að á háskólastiginu hefur þetta ekki verið eins. Þó hefur það gerst m.a. gagnvart Austfjörðum og nú fleiri landshlutum að Kennaraháskóli Íslands hefur verið með í boði fjarnám fyrir kennara og einnig hefur félagsvísindadeild Háskóla Íslands verið með framhaldsnám eða fjarnám fyrir framhaldsskólakennara þannig að á háskólastigi er þó þetta fjarnám veitt. En betur má ef duga skal og ég held að við eigum að íhuga þær hugmyndir sem hér hafa verið kynntar og eiga fullan rétt á sér í þessu ljósi, hvernig getum við nýtt þessa tækni, hvernig getum við gert sem flestum kleift að nota menntun án þess að við séum að fjárfesta í steinsteypu eða koma upp stofnunum um landið allt.

Hitt er aftur áhyggjuefni finnst mér þegar við ræðum sérstaklega um Austfirði, þar sem útgerð er mikil og sjávarútvegur er greinilega undirstaða eins og við vitum alls efnahagslífs og mannlífs, hve lítill áhugi er í þeirri atvinnugrein að njóta menntaðs starfsfólks. Aðeins 1% af þeim karlmönnum sem vinna við fiskvinnslu í landinu hefur háskólamenntun og samkvæmt nýlegu yfirliti hefur engin kona sem vinnur við fiskvinnslu í landinu háskólamenntun. Þannig að maður spyr sig: Ef atvinnulífið í viðkomandi landshlutum gerir ekki meiri kröfur til starfsfólksins um menntun, hvaða forsendur og hvaða hvati er þá á þeim stöðum til þess að menn leggi eitthvað á sig til þess að afla sér menntunar og nýti sér þau tækifæri sem fyrir hendi eru? Þetta er atriði sem mér finnst að við getum ekki litið fram hjá og er atriði sem þarf að ræða hér eins og annars staðar og velta því fyrir sér hvort kröfurnar sem þessi undirstöðuatvinnugrein gerir til menntunar starfsmanna sinna séu nægilega miklar. Og ef þær kröfur aukast og menn vilja gera auknar kröfur til starfsfólksins þá finnst mér að það eigi að nýta þessa tækni, m.a. til þess að auðvelda fyrirtækjunum að fá menntað fólk og skapa því menntaða fólki það umhverfi að það geti endurmenntað sig. Því að staðreyndin er einnig, hvernig sem menn skoða tölur, að þeir sem leggja mesta áherslu á endurmenntun eru best menntaða fólkið. Það er háskólamenntað fólk sem leggur mest upp úr því að halda við sinni menntun þannig að það þarf að skapa ákveðið umhverfi á hverjum stað sem hvetur til þess að menn hafi áhuga á að nýta sér það sem í boði er og þá sérstaklega á sviði háskólamenntunar. Þetta finnst mér mál sem menn verða að velta fyrir sér þegar þeir ræða um þá ágætu hugmynd sem hér hefur verið kynnt og hvernig við getum best staðið að því að skapa þær aðstæður sem víðast í landinu að menn sækist eftir sem bestri menntun og auðveldað mönnum að gera það.