Túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:40:56 (2815)

1997-01-29 13:40:56# 121. lþ. 57.1 fundur 194. mál: #A túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:40]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur farið fram hér áður, þ.e. umræðan um stöðu og réttindi heyrnarlausra og heyrnarskertra. Ég vil láta þá skoðun mína koma fram að ég tel að það sé óhjákvæmilegt að lög verði sett um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra og heyrnarskertra. Ég tel að með því móti verði best tryggður réttur þess fólks sem býr við heyrnarleysi. Það hefur margoft verið rætt og bak við þessa fullyrðingu búa m.a. niðurstöður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og Háskóla Íslands og framhaldsskólanna í þessum málum þar sem farið hefur verið yfir málin með miklum myndarskap. Ég tel að við séum núna komin að því að setja slík ákvæði í löggjöf landsins og þar með eigi þessir þættir að vera tryggðir. Þess vegna skiptir miklu máli að mínu mati að menntmrn. hafi einnig myndarlega forustu í þessum málefnum.