Framhaldsnám fatlaðra

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:54:19 (2821)

1997-01-29 13:54:19# 121. lþ. 57.2 fundur 221. mál: #A framhaldsnám fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hér eru átta spurningar sem verður svarað og verð ég því að fara hratt yfir sögu.

,,Hversu margir nemendur luku grunnskólaprófi vorið 1996?``

Samkvæmt upplýsingum frá grunnskólum voru 4.422 nemendur í 10. bekk grunnskóla skólaárið 1995--1996. Auk þess voru 34 nemendur í 10. bekk í sérskólum ríkisins þetta skólaár. Sumir þeirra útskrifuðust úr grunnskóla en aðrir halda áfram innan sérskólanna í grunnskólanám í vetur. Um það bil 96% nemenda í 10. bekk grunnskóla taka samræmdu prófin í lok grunnskóla. Nemendur í sérskólum og ýmsir nemendur í sérdeildum fá undanþágu frá samræmdum prófum. Þeir útskrifast engu að síður úr grunnskóla en fá einungis vitnisburð frá viðkomandi skóla.

,,Hversu margir nemendur hófu nám í framhaldsskólum landsins haustið 1996?``

Ekki liggur enn þá fyrir hve margir nemendur hófu nám við framhaldsskóla landsins sl. haust. Nýjustu tölur frá nemendaskrá Hagstofunnar eru fyrir haustið 1995 en þá hófu 3.951 nemandi nám í framhaldsskólum eða 88,3% af árgangi.

,,Hvert er meðaltal kennslustunda á viku tvö fyrstu ár framhaldsskólans?``

Mjög erfitt er að gefa upp nákvæmlega hvert meðaltal kennslustunda er á fyrstu tveimur árum framhaldsskólans. Nemendur áfangaskóla geta valið sjálfir hvað mikið nám þeir taka innan vissra marka en ætla má að kennslustundafjöldi nemenda sé 32--36 stundir á viku.

,,Hversu margir nemendur, sem eru fatlaðir samkvæmt skilgreiningu laga um málefni fatlaðra, luku grunnskólanámi vorið 1996?``

Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, eiga þeir nemendur rétt á þjónustu sem eru andlega eða líkamlega fatlaðir og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Síðan eru taldir upp ýmsir flokkar fötlunar í lögunum og í svarinu verður miðað við þá flokka. Þannig flokkast flestir nemendur í sérdeildum grunnskóla ekki sem fatlaðir þótt þeir þurfi margir umtalsverða þjónustu vegna náms, félags- eða tilfinningalegra örðugleika og stunda nám samkvæmt einstaklingsnámskrá. Einnig eru ýmsir nemendur í almennum skólum sem eru hreyfihamlaðir að einhverju leyti en ekki liggja fyrir upplýsingar í ráðuneytinu um alla þá sem útskrifuðust hreyfihamlaðir sl. vor úr grunnskóla. Auk þess má nefna að í Reykjavík eru skólaárið 1996--1997 85 nemendur í sérdeildum og sérskólum í svokölluðu fjölnámi í 10. bekk sem ekki teljast fatlaðir en þurfa sérstakan stuðning í námi í grunnskóla og einnig að loknu grunnskólanámi. Því er ljóst að upplýsingar um fjölda fatlaðra nemenda sem luku grunnskólanámi vorið 1996 eru ekki tæmandi.

Fjöldi fatlaðra sem lauk grunnskólanámi vorið 1996: Samtals er vitað um 33 nemendur sem eru fatlaðir samkvæmt skilgreiningu laga um málefni fatlaðra og luku grunnskólanámi vorið 1996. Upplýsingar um hreyfihamlaða eru af skornum skammti og einnig eru ýmsir nemendur á mörkum þess að flokkast samkvæmt áðurnefndum lögum. Hreyfihamlaðir eru tveir í sérdeild hreyfihamlaðra í Hlíðaskóla en ýmsir hreyfihamlaðir stunda nám í almennum skólum en ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda þeirra.

Blindir eða sjónskertir: Einn í blindradeild Álftamýrarskóla. Ekki eru fleiri taldir blindir eða sjónskertir á landinu sem luku grunnskólanámi vorið 1996.

Heyrnarlausir: Tveir í Vesturhlíðarskóla. Ekki fleiri á landinu sem útskrifuðust.

Heyrnarskertir: Ellefu úr almennum grunnskólum.

Geðfatlaðir: Enginn nemandi úr sérdeildum einhverfra. Ekki er vitað um neinn á landinu.

Þroskahömlun: Vitað er um 16 úr sérskólum og einn úr almennum grunnskóla. Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir.

,,Hversu margir nemendur, sem eru fatlaðir samkvæmt skilgreiningu laga um málefni fatlaðra, hófu nám á framhaldsskólastigi haustið 1996?``

Samkvæmt upplýsingum framhaldsskólanna hófu 53 fatlaðir nemendur nám haustið 1996. Auk þess hófu 11 nemendur nám í starfsdeild Öskjuhlíðarskóla að loknum 10. bekk vorið 1996.

,,Hvert er meðaltal kennslustunda sem fatlaðir nemendur fá á viku í framhaldsskólum?``

Ekki liggur fyrir hvað fatlaðir nemendur sækja margar kennslustundir að meðaltali á viku í framhaldsskólum. Samkvæmt upplýsingum framhaldsskólanna er það mjög mismunandi eins og hjá ófötluðum nemendum.

,,Hversu margir nemendur, sem eru fatlaðir og luku grunnskólanámi 1996, eru í námi í fullorðinsfræðslu? Hvert er meðaltal kennslustunda sem þeir nemendur fá á viku?``

Samkvæmt upplýsingum frá fullorðinsfræðslu fatlaðra hófu níu nemendur nám í haust. Þessir nemendur eru 18 ára eða eldri og koma úr starfsdeildum Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla. Nemendur fá 12 kennslustundir á viku.

,,Verða settar á stofn starfsnámsbrautir fyrir fatlaða nemendur við Borgarholtsskóla í Reykjavík eins og lofað var og þá hvenær? Hvert verður skipulag og lengd þess náms?``

Þessi kennsla í Borgarholtsskólanum hófst núna eftir áramótin og nemendur eru sjö til átta til að byrja með. Unnið er að skipulagningu brautarinnar og verður hún mörkuð með því starfi sem nú er hafið. Gert er ráð fyrir að á vorönn verði nemendur 25 kennslustundir í skóla fyrir hádegi og 10 stundir í vinnu eftir hádegi. Gert er ráð fyrir að hver nemandi verði með sérstaka námskrá.