Frjálst námsval milli Norðurlanda

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:02:48 (2823)

1997-01-29 14:02:48# 121. lþ. 57.3 fundur 222. mál: #A frjálst námsval milli Norðurlanda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Í september sl. undirskrifuðu menntamálaráðherrar Norðurlanda samkomulag um frjálst námsval á Norðurlöndum. Ég rakst í norsku blaði á viðtal við norska menntamálaráðherrann þar sem hann er að lýsa þessum samningi sem virðist hafa verið gerður einkum að kröfu Dana þar sem þeir veittu margfalt fleiri Norðurlandabúum skólavist en þeir sendu til náms til annarra landa. Finnar og Norðmenn höfðu lengst af staðið gegn slíku samkomulagi enda hallar mjög á þá í þessum efnum. Á aðild Íslendinga að þessum málum er ekkert minnst í umræddu viðtali annað en að tekið er fram að allir ráðherrar norrænu ríkjanna hafi undirritað samninginn.

Nú vitum við að mjög margir Íslendingar hafa á undanförnum árum stundað nám á Norðurlöndum enda eru þar fjölmargar námsbrautir í boði sem ekki eru kenndar hér á landi og skólanám á Norðurlöndum, sérstaklega í Danmörku, hefur verið mjög aðgengilegt fyrir Íslendinga vegna þeirrar undirstöðu sem við höfum í norrænum málum og þeirrar sérstöku velvildar sem við höfum yfirleitt notið þar um slóðir. Við höfum átt vísa skólavist fyrir tiltekinn fjölda námsmanna í ákveðnum skólum, svo sem kennaraháskólum, landbúnaðarháskólum og dýralæknaskólum. En hætta er á að þegar þessi samningur tekur gildi raskist slíkir kvótar nema sérstaklega hafi verið um þá samið og því spyr ég:

Eru Íslendingar aðilar að þessum samningi, fullgildir aðilar? Ef svo er, er þá byrjað að vinna eftir honum?

Hversu háa upphæð á ríkið að greiða á ári með hverjum námsmanni?

Er þarna um að ræða ótiltekinn fjölda námsmanna eða er á þessu einhver fjöldatakmörkun, og eru þá uppi einhverjar áætlanir um hverjir skuli eiga rétt á skólavist?