Frjálst námsval milli Norðurlanda

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:05:02 (2824)

1997-01-29 14:05:02# 121. lþ. 57.3 fundur 222. mál: #A frjálst námsval milli Norðurlanda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. les norsk blöð vel og aflar sér upplýsinga um menntamál þaðan. Ef hv. þm. hefði lesið íslensk blöð um sama leyti þá hefði hann komist að hinu sanna um þetta mál því það var skýrt frá því nákvæmlega hvernig Íslendingar standa að þessu en mér er ljúft að svara þessum fyrirspurnum.

,,1. Eru Íslendingar aðilar að samningi um frjálst námsval milli Norðurlanda sem undirritaður var af menntamálaráðherrum Norðurlanda síðasta haust? Ef svo er, er þegar byrjað að vinna eftir honum?``

Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands undirritaði ég samning milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um aðgang að æðri menntun í Kaupmannahöfn 3. sept. sl. Þetta er væntanlega samningurinn sem fyrirspyrjandi óskar upplýsinga um. Samningur þessi tók gildi nú um áramótin og hefur verið unnið eftir honum í nokkrar vikur. Á samninginn mun fyrst reyna við innritun nemenda fyrir háskólaárið 1997--1998 en hún fer fram á Norðurlöndunum nú í vor.

,,2. Hversu háa upphæð á ríkið að borga á ári með hverjum námsmanni?``

Á samningstímanum sem er þrjú ár greiðir íslenska ríkið ekkert fyrir námsmenn sem fara héðan til náms við háskóla á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt 7. gr. samningsins skulu Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð greiða fyrir hvert almanaksár bætur til móttökulandsins fyrir sína námsmenn er stunda nám í öðru Norðurlandaríki. Þetta ákvæði gildir ekki um Ísland.

Þess má geta að þátttaka okkar í greiðslukerfinu hefði væntanlega haft í för með sér um 100 millj. kr. kostnað á ári þessi þrjú ár sem samningurinn á að gilda. Þegar ríkisstjórnin samþykkti aðild okkar að samningnum í ágúst sl. var ákveðið að á samningstímanum verði metið hvort hagsmunum Íslands af samningnum yrði betur borgið með þátttöku okkar í greiðslukerfinu. Þetta er ákveðið reynslutímabil og full ástæða til að vega og meta stöðu samningsins sem hluta af okkar utanríkissamskiptum í heild áður en tímabilinu lýkur.

,,3. Er fjöldi námsmanna ótiltekinn eða takmarkaður? Ef hann er takmarkaður, hafa verið gerðar einhverjar áætlanir um hverjir skuli eiga rétt á slíkri skólavist?``

Fjöldi námsmanna sem farið geta milli Norðurlandanna samkvæmt samningnum er ekki takmarkaður og þar af leiðandi hafa ekki verið gerðar áætlanir um hverjir skuli eiga rétt á skólavist.

Í 1. gr. samningsins segir m.a., með leyfi forseta: ,,Aðilar skuldbinda sig til að veita umsækjendum sem búsettir eru í öðru Norðurlandaríki inngöngu í æðri menntastofnanir á vegum opinberra aðila, hver í sínu landi, með sömu eða sambærilegum skilyrðum og gilda fyrir umsækjendur frá eigin landi.``

Meginatriði málsins er það sem fram kom þegar þessi samningur var undirritaður og þegar hann var kynntur í haust að Íslendingar eru í sjálfu sér ekki þátttakendur í þessu gagnkvæma greiðslukerfi. Við stöndum þar fyrir utan. Samningurinn takmarkar alls ekki rétt íslenskra námsmanna til þess að sækja nám í háskólum annars staðar á Norðurlöndunum og ríkisstjórnin ætlar að nota gildistíma samningsins sem er þrjú ár frá síðustu áramótum til þess að meta stöðuna og kanna þá hvaða afstaða verður tekin þegar samningstímabilið rennur út.