Frjálst námsval milli Norðurlanda

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:10:23 (2826)

1997-01-29 14:10:23# 121. lþ. 57.3 fundur 222. mál: #A frjálst námsval milli Norðurlanda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:10]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja um þessi atriði að mér finnst nú óþarfi að draga Smugudeilur eða innflutning á svínakjöti inn í þetta mál og telja að íslenskum námsmönnum verði meinaður aðgangur að skólum í Noregi eða Danmörku vegna deilna um slík mál þótt við séum ekki aðilar að greiðslukerfi samkvæmt þessum samningi. Auðvitað er aldrei hægt að útiloka það og væri einnig hægt að gera það þótt við værum aðilar að þessum þætti samningsins ef menn kysu svo. En norrænt samstarf byggist nú á öðru en því að tengja mál saman á þann hátt sem hv. þm. ýjaði að. Það var ákveðið strax í upphafi af Norðurlandaþjóðunum öllum, og við komum þar ekki fram sem neinir þurfalingar, að meðan þetta kerfi yrði reynt og eins og um hnúta er búið þá yrðu Íslendingar ekki aðilar að því. Það er ákvörðun þessara ríkja sem að samningnum standa auk okkar. Við vorum alls ekki neinir beiningamenn í þessu máli. Þetta var ákvörðun sem lá fyrir þegar ég tók við störfum sem menntmrh. og ég sá enga ástæðu til þess að hrófla við henni. En eins og ég segi þá liggur fyrir að ríkisstjórnin mótaði þá stefnu með aðildinni og hún útilokar að sjálfsögðu ekki að við gerumst fullir aðilar að þessu með greiðsluskyldu þegar fram líða stundir og ef þannig verkast vill. En það er ekki vegna þess að við séum þurfalingar sem þetta mál er svona vaxið.