Smáfiskaskiljur

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:17:35 (2829)

1997-01-29 14:17:35# 121. lþ. 57.4 fundur 207. mál: #A smáfiskaskiljur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:17]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er sú gerð smáfiskaskilju sem mest reynsla er komin á norsk uppfinning. Tilraunir hér á landi með slíka skilju hófust árið 1992 og hafa staðið yfir með hléum. Þessar tilraunir hafa einkum farið fram um borð í Bjarti NK en skipstjóri þess skips, Birgir Sigurjónsson, hefur sýnt þessum tilraunum mikinn áhuga.

Niðurstöður tilraunanna hér á landi eru í stuttu máli þær að verulega má draga úr veiði smáþorsks og smáýsu með því að nota skilju í vörpunni. Hluti smáfisks undir þeim viðmiðunarmörkum sem gilda um skyndilokanir getur minnkað um 15--20% þegar mikið er um smáfisk. Hins vegar hefur ekki gefist tækifæri til þess að reyna smáfiskaskilju við veiðar á ufsa, karfa og grálúðu að neinu marki. En þó bendir ýmislegt til að skiljan henti síður á karfa en þorsk og ýsu. Hins vegar liggur fyrir að um það bil 85% af kolategundum sleppa út um skiljuna.

Ljóst er að hiklaust má mæla með notkun skilju við veiðar á þorski og ýsu en frekari þörf er á rannsóknum varðandi aðrar fisktegundir, einkum karfa, t.d. með tilliti til hvaða rimlabil sé heppilegt í skiljunni og er stefnt að því að slíkar tilraunir fari fram nú í vor.

Ég óskaði eftir því á sl. hausti að samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna, sem starfar með ráðuneytinu um bætta umgengni um fiskimiðin, fjallaði sérstaklega um þetta álitaefni. Ég fékk bréf frá nefndinni með niðurstöðum hennar 19. desember, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur að hvetja eigi til notkunar smáfiskaskilju. Því er ekki tímabært að lögbinda notkun skiljunnar. Hins vegar er æskilegt að opna einhver lokuð veiðisvæði fyrir þau togskip sem nota skiljur. Við leggjum þó áherslu á að ekki verði opnuð hólf þar sem lítið er af öðrum tegundum en þorski, enda er það þarflaust að svo stöddu þar sem vandalaust er að veiða þorskkvótann á slóðum þar sem lítið er um smáfisk. Við teljum að kanna beri lokuð hólf á Breiðadalsgrunni og þar í kring þar sem þar er oft ýsu að fá. Sömuleiðis kemur til greina að opna Hornbankahólfið á haustdögum fyrir skip sem nota skilju til þess að veiða ýsu sem þar er oft innan um þorsk. Verði mikið um smáfisk af þorski og ýsu er æskilegt að setja á nýjar reglugerðarlokanir sem ekki gildi fyrir skip með smáfiskaskilju. Slíkt mundi að sjálfsögðu flýta mjög fyrir almennri notkun skiljunnar, t.d. við ýsuveiðar á Selvogsbanka snemma vors.

Ekki er æskilegt að gera þær breytingar á reglum sem skapað geta hvata til aukinna skyndilokana í stað lokana til lengri tíma. Engu að síður telur nefndin rétt í tilraunaskyni að hvetja til aukinnar notkunar smáfiskaskilju á þann hátt að togskip með skilju verði undanþegin skyndilokunum þegar hlutfall smáfisks í afla með skilju er undir núgildandi viðmiðunarmörkum.

Nefndin telur að ekki eigi að opna helstu smáfiskasvæði á uppeldisstöðum nytjafiska þar sem seiði taka botn og halda sig fyrstu ár æviskeiðisins. Nánari lýsing slíkra svæða verði gerð sem allra fyrst.``

Ráðuneytið hefur fyrir sitt leyti fallist á þær leiðbeinandi tillögur sem hér hafa verið gerðar af hálfu umgengnisnefndarinnar. Tilraunum verður haldið áfram og hefur verið ákveðið að kanna hvort ekki sé unnt að opna einhver friðunarsvæði fyrir togveiðar með skilju. Sú könnun stendur nú yfir. Ég geri síðan ráð fyrir því að fyrir lok þessa árs verði hægt að taka ákvörðun um hvort og þá með hvaða hætti skilja yrði lögbundin við veiðar hér á landi.