Öryggi barna

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:26:52 (2833)

1997-01-29 14:26:52# 121. lþ. 57.5 fundur 252. mál: #A öryggi barna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Um árabil hefur há tíðni á slysum meðal barna verið áhyggjuefni en tölur frá slysadeild og öðrum móttökum slasaðra á landinu benda til þess að árlega þurfi upp undir 20 þúsund börn á læknishjálp að halda vegna slysa. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Það þýðir að nánast fjórða hvert barn slasast árlega. Þegar þessar slysatölur eru bornar saman við sambærilegar tölur frá hinum Norðurlöndunum kemur í ljós að hér á Íslandi eru helmingi fleiri slys á börnum heldur en t.d. í Svíþjóð. Það er ljóst að það þarf að gera allt sem hægt er til að stemma stigu við þessu.

Orsakir slysa eru margvíslegar. Við þekkjum það úr fjölmiðlum. Ég nefni það t.d. að á síðustu 13 árum hafa slys af völdum lausra eða illa frágenginna fótboltamarka leitt til þess að 30 börn hafa slasast lífshættulega við það að hanga í lausu marki og fá það ofan á sig, slasast þá á höfði eða á kvið. Ástæðan fyrir því að ég kem fram með þessa fyrirspurn er einmitt að fyrir nokkrum árum urðu slík slys tilefni mikillar umræðu í fjölmiðlum og núna í desember varð aftur slíkt slys þar sem lítil stúlka hlaut alvarlega áverka og ekki er séð fyrir hvernig því mun lykta.

Það er líka ljóst að heitt vatn veldur því að mjög stór hópur barna brennist á hverju ári. Ég nefni þar sérstaklega að ekki er gert ráð fyrir því í reglum að það sé skýrt tekið á því að hitavarar séu settir t.d. í setlaugar og það hefur valdið alvarlegum brunaslysum. Öryggismálum í sundlaugum er áfátt eins og við vitum af og fleira má nefna. Ég nefni t.d. að það er ekkert til í reglum enn þá sem varðar hönnun leikskóla og skóla og eru dæmi um að lítil börn hafi hlotið alvarlega höfuðáverka vegna þess að undirlagið þar sem börnin eru að leik og starfi er allt of hart. Menn eru með flísar og hart undirlag sem gerir það að verkum að tiltölulega lágt fall getur valdið alvarlegum skaða.

Þetta varð til þess, herra forseti, að undir lok síðasta kjörtímabils var sett af stað ákveðin vinna í umhvrn. sem fólst í því að nefnd var sett á laggir til þess að leggja til breytingar á reglugerðum sem fjölluðu um skipulag og byggingarmál, fyrst og fremst til þess að draga úr þessum slysum. Ég batt ákveðnar vonir við að hægt yrði að ljúka því áður en síðasta kjörtímabili lauk en það reyndist ekki kleift. Nú er liðinn alllangur tími frá því að þessi nefnd hóf störf og mig langaði þess vegna af því tilefni sem ég gat um hérna áðan, þ.e. þessa slyss sem varð í desember, að inna hæstv. umhvrh. eftir því hvað þessum breytingum líði og hvort ekki megi sjá fyrir endann á þessari vinnu og hvort þess sé ekki vænta alveg á næstunni að þessum reglugerðum verði breytt.