Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:06:53 (2838)

1997-01-29 15:06:53# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:06]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka alþýðubandalagsmönnum fyrir framkomið frv. sem nú er endurflutt eins og fram kom í ræðu hv. flm. Þetta frv. til stjórnarskipunarlaga er þarft að mínu mati en eins og reyndar kom fram í framsögu flm. er þörf á því að huga betur að ýmsum þáttum er varða eignarrétt á íslenskum náttúruauðæfum og námum í jörðu og jarðhita neðan við 100 metra dýpi.

Þann 29. október sl. var hér á Alþingi til umræðu frv. til laga um orku fallvatna og frv. til laga um jarðhitaréttindi sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mælti fyrir. Þá benti hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson m.a á að það væri alls ekki sjálfgefið að miða við 100 metra dýpi, þ.e. að ríkið eigi allt sem er fyrir neðan 100 metra dýpi og miða við þau mörk, og þar vitnar hann m.a. í dr. Magnús Hannesson þjóðréttarfræðing á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

Í framhaldi af þessu vekur hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson athygli þingheims á að það sé ekki endilega eðlilegast að miða við 100 metra eða 50 metra og bendir á að það megi alveg eins hugsa sér einhvers konar allt öðruvísi takmörkunarreglu, t.d. að miða við styrkleika virkjunar ef um það væri að ræða eða eitthvað sem ekki er bundið við lóðrétta línu niður í jörðina.

Ég vil taka undir þessar athugasemdir hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Um leið bendi ég á að fyrirhugað er að ríkisstjórnin leggi fram á þessu þingi að mér skilst frv. um þjóðlendur, og það væntanlega mjög bráðlega, og ég geri ráð fyrir að það frv. m.a. muni varpa ljósi á þessa umræðu í víðara samhengi og fleiri hliðar þessa máls komi þar upp. Þess vegna er ég ekki alveg sannfærð um að þau ákvæði er varða land og landnýtingu sem koma fram í þessu frv. séu þau albestu þótt í meginatriðum geti ég lýst stuðningi við þau sjónarmið sem þar koma fram.

En það er að mínu mati og okkar kvennalistakvenna eitt ákvæði í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga sem er alveg bráðnauðsynlegt að festa í stjórnarskrá sem allra fyrst, alla vega fyrir lok þessa kjörtímabils sem væntanlega verður ekki á þessu þingi, en það er ákvæðið um auðlindir sjávar, auðlindir í sjó og á sjávarbotni eins og það er orðað í þessu frv. Þær auðlindir eru auðvitað langverðmætustu auðlindir þjóðarinnar. Þess vegna höfum við kvennalistakonur lagt fram frv. til stjórnarskipunarlaga sem dreift var hér á Alþingi í dag og þar sem það frv. tengist því frv. sem hér er til umræðu vil ég stikla á stóru um efni þess, ekki síst vegna þess að í grg. frv. þeirra alþýðubandalagsmanna er ekki farið mjög ítarlega út í rökin fyrir því að festa í stjórnarskrá nytjastofnana í hafinu þó að frsm. hafi bætt þar nokkuð úr í ræðu sinni.

Efnisgreinin í frv. okkar kvennalistakvenna, en við flytjum það þrjár, Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Halldórsdóttir, hljóðar svo:

,,Á eftir 72. gr. kemur ný grein er verður 73. gr. og breytist röð annarra greina til samræmis við það. Greinin hljóðar svo:

Nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til eru sameign íslensku þjóðarinnar. Kveðið skal á um sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda til hagsbóta fyrir þjóðarheildina í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.``

Í grg. er bent á að nytjastofnarnir á Íslandsmiðum séu langmikilvægasta auðlind þjóðarinnar og að í lögum um stjórn fiskveiða hafi verið ákvæði allt frá árinu 1988 um að þeir séu sameign íslensku þjóðarinnar. Með þessu frv. til stjórnarskipunarlaga er verið að tryggja stjórnskipunarlega stöðu þess ákvæðis.

Með þessum fyrri málslið greinarinnar er verið að tryggja annars vegar forræði Íslendinga yfir auðlindinni og hins vegar að auðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar en ekki þeirra sem fara með nýtingarréttinn samkvæmt lögum hverju sinni. Og ég tek undir það með frsm. þess frv. sem hér er til umræðu að það er mjög nauðsynlegt að styrkja þetta lagaákvæði með því að kveða á um það í stjórnarskránni, ekki síst vegna þess lagafrv. sem hér liggur fyrir þinginu og mér skilst að standi til að ræða á næstu dögum um veðheimildir, um að lögfesta veðheimildir á aflahlutdeild. Eins og við vitum er verulegur ágreiningur um hvernig stjórn fiskveiða fer í raun með þetta sameignarákvæði. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þetta verði fest í stjórnarskrá. Síðara ákvæði greinarinnar kveður annars vegar á um að nýta beri auðlindina á sjálfbæran hátt. Með því er átt við að nýtingin mæti þörfum núverandi kynslóðar án þess að skerða möguleika kynslóða framtíðarinnar til sambærilegrar nýtingar. Þetta eru reyndar orð sem til þessa hafa ekki verið sérstaklega í lögum af þessu tagi en ég tel að þau séu í samræmi við t.d. Ríó-sáttmálann og aðra sáttmála sem við erum aðilar að og að mjög mikilvægt sé að þessi orð --- sjálfbær nýting --- komi inn í löggjöf af þessu tagi.

[15:15]

Í því sambandi er minnt á hið mikla brottkast sem ég tel að geti ógnað sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. En eins og vitað er er brottkast talið vera einn alvarlegasti fylgifiskur kvótakerfisins sem við vitum um. Ég tel að það verði að taka það mál mun fastari tökum með því að lögfesta inn í stjórnarskrá eða að nýtingin verði að vera sjálfbær. Það þýðir í raun að mun fastar verði tekið á þeim málum til að tryggja að komandi kynslóðir hafi sömu möguleika og við til að nýta þessa auðlind.

Þá þykir ástæða til að ítreka hagsmuni þjóðarheildarinnar í ljósi þess að heilu byggðarlögin virðast geta misst lífsviðurværi sitt við kaup eða sölu einstaklinga á aflahlutdeildum nú. Það getur einnig átt sér stað þegar aflahlutdeildum er úthlutað án endurgjalds til einstaklinga og fyrirtækja sem nýta ekki veiðirétt sinn en hagnast á því að selja hann eða leigja til þeirra sem stunda fiskveiðar, þeirra sem ekki fá veiðileyfi eða aflahlutdeild þrátt fyrir ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar um að ekki megi leggja bönd á atvinnufrelsi manna nema almannaheill krefji.

Í grg. með frv. eru síðan ýmsar skilgreiningar á hugtökum eins og á nytjastofnum og við hvaða hafsvæði er átt og þykir ekki ástæða til að tíunda það hér. En ég vil benda á að þetta frv. okkar kvennalistakvenna er nær samhljóða frv. sem forsrh. flutti á síðasta kjörtímabili, 118. löggjafarþingi árið 1994--1995, sem stjfrv. Sjálfstfl. og Alþfl. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar er stefnt að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar og af þessu dreg ég þá ályktun að um efni þessa frv. okkar kvennalistakvenna hljóti að vera víðtæk sátt í þinginu.