Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:20:18 (2840)

1997-01-29 15:20:18# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:20]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að hér er fyrst og fremst til umræðu frv. til stjórnarskipunarlaga þar sem ekki er farið ítarlega út í löggjöf um stjórn fiskveiða. En í þessari grein sem getið er um er ítrekað að nytjastofnarnir séu sameign íslensku þjóðarinnar og þá beri að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Það sem ég var að útskýra er að ég tel að sú nýting sem nú er á auðlindinni sé ekki til hagsbóta fyrir þjóðarheildina þegar það getur komið upp að heilu byggðarlögin missa lífsviðurværi sitt. --- Ég hef varla tíma í andsvari þó ég geti kannski litið svo á að þetta sé í annað skiptið sem ég tek til máls og sé ekki í andsvari. --- Það er ekki stefna okkar kvennalistakvenna að fara að tala um ríkisútgerðir.

(Forseti (StB): Forseti lítur svo á að hv. þm. sé að svara andsvari.)

Þá er best að ég fari ekki út í þetta nánar en það er ekki ætlun Kvennalistans að fara út í ríkisútgerðir. Hins vegar tel ég að sem stjórnarskrárákvæði þá sé þetta orðalag mikilvægt. Það verði þó að útfæra nánar í lögum.