Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:36:31 (2845)

1997-01-29 15:36:31# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:36]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað á þingmaðurinn að skilja hvað ég á við. Hann talar um tryggan eignarrétt, að samningar haldi og um frelsi í viðskiptum. Og hvert nær svo frelsi í viðskiptum? Eins og ég var að lýsa því. Ef jörð, sem er í raun og veru melar og móar, liggur þannig við þéttbýlinu að þéttbýlið þróast fyrir aðgerðir þéttbýlisins, ekki eigendanna að jörðinni, þá fær hún í raun og veru verðgildi og það hefur gerst á liðnum árum og það þekkja allir sem hafa komið að stjórn þéttbýlisstaðanna hér í kring. (ÁMM: Ert þú á móti því að ...?) Það hefur gerst á liðnum árum að jafnvel sveitarfélög hafa fallið í það og Fasteignamat ríkisins að meta slíkar jarðir út frá ytri aðstæðum og út frá þéttbýlismynduninni sem teygist að. Og þegar síðan kemur að því að taka slíkt eignarnámi þá liggur eitthvert slíkt mat til grundvallar. Ef við settumst niður og færum bara yfir suðvesturhornið og skoðuðum sögu ýmist jarðakaupa eða eignarnáms, þá kæmu fróðlegir hlutir í ljós. (ÁMM: En ertu á móti því?)