Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:38:22 (2847)

1997-01-29 15:38:22# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:38]

Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en hv. 2. þm. Reykn., Árni M. Mathiesen, heldur fleiri ræður um þetta mál, þá verður hann að leyfa sér þann munað að lesa frv. og kynna sér það vegna þess að hann fór auðvitað með staðlausa stafi áðan. Það er alger misskilningur að með þessu frv. sé verið að aftengja almennan eignarrétt eða að bændur séu gerðir að leiguliðum. Og það er mikill misskilningur yfirleitt að verið sé að vega að eignarrétti bænda með þessu frv. Það er bara alls ekki verið að því á nokkurn hátt. Ég tel að með þessu frv. verði eignarréttur bænda nákvæmlega sá sami og hann er í dag samkvæmt túlkun og margítrekuðum skilningi Hæstaréttar. Þetta kom fram í framsöguræðu minni. Þetta er status quo hvað snertir lagalega stöðu bænda og eignarréttarlega stöðu þeirra. Þeir halda eignarrétti sínum að jörðum sínum og öllum heimalöndum. En það er einungis verið að skilgreina í hverju eignarréttur þeirra í afréttum er fólginn. Hann er óbeinn eignarréttur, takmarkaður eignarréttur og það er bara nákvæmlega það sama og Hæstiréttur hefur margsinnis sagt í sínum dómum.

Það er líka misskilningur að það eigi að meta allt land nákvæmlega eins samkvæmt þessum skilgreiningum hér. Það er verið að segja það hins vegar að það eigi að meta land miðað við verðmæti hliðstæðra eigna. Auðvitað segir það sig sjálft að frosin túndra og gróið land verður aldrei lagt að jöfnu (ÖS: Nema það séu olíulindir þar.) nema það séu einhverjar sérstakar lindir þar undir. Þá auðvitað getur ýmislegt fleira komið inn.

En ég vil bæta því við að endingu að í Noregi er ekki miðað við það að greiddar séu fullar bætur. Það er ekki alls staðar eins og hér á Íslandi að miðað sé við fullar bætur. Þar er miðað við sanngjarnar bætur og það er sú hugsun sem ég tel að eigi að koma inn í íslenska löggjöf og sé nær lagi.