Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:55:50 (2853)

1997-01-29 15:55:50# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég orðaði þetta ekki svo að þverstæða hefði verið í málflutningi hv. þm. Það var hans eigin túlkun á mínum málflutningi. Ég benti hins vegar á að hv. þm. hefði stutt frv. sem herðir sameignarréttinn fremur en séreignarréttinn. Að öðru leyti verð ég að segja það, herra forseti, að ég er alltaf jafnhissa á því hvað forusta Sjálfstfl. er slegin miklum kvíða yfir hinu fyrirhugaða samstarfi sem kann að leiða til sameiningar jafnaðarmanna. Ef til vill eru þeir hræddir um að við hirðum af þeim þingflokksherbergið fína í fyllingu tímans. Það er nefnilega svo að það er ekki bara hv. þm. Árni M. Mathiesen sem hefur kvatt sér hljóðs að undanförnu til að vekja eftirtekt á þessari auknu samvinnu. Einn af leiðtogum lífs hans sem situr hér á ráðherrastóli, hæstv. dóms- og kirkjumrh. og sjútvrh., hefur í greinum nýlega í Morgunblaðinu opinberað það að einnig hann er kominn með skjálfta í hnén vegna þess að hann óttast þessa sameiningu. Menn sjá auðvitað þegar þeirra sæng er upp reidd og takið eftir því að ég sagði sæng en ekki exi.