Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 16:00:34 (2857)

1997-01-29 16:00:34# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[16:00]

Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar):

Herra forseti. Það gildir um bætur vegna eignarnáms að þær eru ýmist ákveðnar með samningum aðila eða þá með dómi. Og ef sagt er í lögum að ekki sé skylt að greiða fullar bætur, þá er fyrst og fremst verið að opna leið fyrir dómstólana til þess að ákveða bætur sem væru lægri en markaðsverð sem skapast hefur vegna þess að þéttbýli er að myndast, þ.e. verð sem hefur orðið til vegna aðgerða annarra, vegna þess að vegur hefur verið lagður af hinu opinbera, vegna þess að brú hefur verið byggð af hinu opinbera. Eignir hækka af þessum sökum og þá er sem sagt dómstól ekki skylt að fylgja hinu strangasta markaðsverði heldur getur hann haft bæturnar lægri. Það er alveg rétt að þegar dómstólar eiga í hlut, þá geta orðið mismunandi niðurstöður. Þannig er t.d. engin vissa fyrir því að dómstóll á Norðurlandi dæmi menn í sömu refsingu og dómstóll á Suðurlandi. En síðan er málum vísað til Hæstaréttar og Hæstiréttur mundi þá væntanlega í slíkum málum koma sér upp einhverri ákveðinni dómvenju sem síðan yrði fordæmi og miðað yrði við þannig að ég held að þessar áhyggjur hv. þm. af því að þarna kæmi upp ósamræmi séu ástæðulausar. Endanlegur úrskurðaraðili yrði Hæstiréttur og hann mundi vafalaust mynda sér einhverja dómvenju í þeim efnum.