Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 10:38:53 (2860)

1997-01-30 10:38:53# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[10:38]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þar sem hér er um býsna stórt frv. að ræða þá hafði ég kannski reiknað með því að ræða ráðherrans yrði öllu ítarlegri en hún reynist vera en þar kemur ugglaust fram mat hans á því sem hér er um fjallað. Ég er með tvær spurningar vegna þess hvernig hann hagaði sínu máli sem ég held að sé nauðsynlegt að svör komi við strax.

Í fyrsta lagi af því hann jafnar saman framleiðslurétti búanna í landinu í landbúnaði og veiðiheimildum þá væri fróðlegt ef hann upplýsti hvað framleiðsluréttinum er úthlutað til langs tíma í senn. Það er ljóst að veiðiheimildum er úthlutað til eins árs í senn en af því að hann jafnar þessu saman, hvað er þá framleiðsluréttinum úthlutað til langs tíma í senn og hver er munurinn á öryggi í þeim málum?

Í öðru lagi fjallar hann um að veiðiheimildir geti ekki verið sjálfstætt andlag. Það er alveg rökrétt. Þær geta það ekki vegna þess að þær fylgja ávallt skipi, er ekki svo? Var hinn möguleikinn einhvern tímann uppi? Var sá möguleiki uppi einhvern tímann að hægt væri að veðsetja veiðiheimild af því henni er alltaf úthlutað á skip? Það væri þá hægt að veðsetja hana sjálfstætt? Mér finnast þessi rök svolítið sérkennileg og vildi gjarnan að ráðherrann rökstyddi enn frekar nákvæmlega þetta. Hvernig gat hann séð það fyrir sér að veiðiheimild væri veðsett sérstaklega þegar veiðiheimild er alltaf úthlutað á skip?