Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 10:40:28 (2861)

1997-01-30 10:40:28# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[10:40]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér gætir einhvers misskilnings. Það hefur aldrei staðið til í fyrri útgáfum frv. að heimila veðsetningu aflahlutdeildar sérstaklega vegna þess að það stangaðist á við reglur fiskveiðistjórnarlaganna. Í fyrri útgáfum frv. var hins vegar gert ráð fyrir að unnt væri að veðsetja verðmæti skips með veiðiréttinum eða aflahlutdeildinni en aldrei á þann veg að unnt væri að veðsetja veiðiréttinn sérstaklega og skilja hann frá skipinu. Það hafa aldrei verið settar fram hugmyndir í þá veru svo ég viti til og engin af fyrri frv. sem lögð hafa verið fram hafa falið það í sér. Hér er hins vegar farin önnur leið, þ.e. að beinlínis er bannað að veðið taki til þessara verðmæta en á hinn bóginn er óheimilt að slíta þau frá skipinu, þegar um skip er að ræða, þannig að sá sem á veð í skipinu er öruggur um að aflahæfi skipsins skerðist ekki og þar með er því markmiði náð sem að hefur verið stefnt, þ.e. að tryggja öryggi í viðskiptum. Veðlögin vinna ekki að öðru markmiði og eru alveg hlutlaus gagnvart fiskveiðistjórnarlögunum.

Varðandi fyrri spurningu hv. þm. þá liggur alveg ljóst fyrir að það skiptir ekki máli gagnvart veðlögunum hvort réttindum af þessu tagi er úthlutað til lengri eða skemmri tíma. Veðlögin eru algjörlega hlutlaus gagnvart slíkum ráðstöfunum og Alþingi getur eftir sem áður tekið ákvörðun um að breyta reglum um búmark og reglum um úthlutun aflahlutdeildar. Það hefur engin áhrif á veðlögin (Forseti hringir.) eða réttarstöðuna sem þar er uppi.