Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:13:03 (2869)

1997-01-30 11:13:03# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:13]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. er kunnur að því hér í þinginu að orða hugsanir sínar skýrt og skilmerkilega þannig að allir skilji. Að þessu sinni áttaði ég mig hins vegar ekki alveg á því hvers vegna hann hefur áhyggjur af þessu ákvæði. Ég er sammála því sem hann sagði að lögin um stjórn fiskveiða eru alveg afdráttarlaus í því að þau fela ekki í sér afhendingu á varanlegum eignarrétti og Alþingi getur hvenær sem er breytt þeirri skipan mála. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn haldi þeirri skýru lagasetningu og séu ekki að mistúlka hana. En ýmsir telja þó að það eigi að takmarka framsal, sumir bara framsal á aflamarki, sumir einnig á aflahlutdeild, til þess að gera þessi ákvæði enn virkari. Ég er út af fyrir sig ekki sammála því. En þetta frv. felur það eitt í sér að það er verið að takmarka rétt útgerðarmanna til að framselja aflahlutdeild. Þeir geta framselt aflamark algjörlega að vild sinni. Engar hömlur eru lagðar á það með þessu frv. Hins vegar eru settar skorður við því að útgerðarmenn geti framselt aflahlutdeild. Ég hefði nú haldið að gagnrýnin á fiskveiðistjórnarkerfið hefði heldur verið á það að framsalsréttur væri of rúmur. En svo koma að stórum hluta til einmitt þeir sömu menn, þó að þar séu á undantekningar, sem eru að gagnrýna að framsalsrétturinn skuli vera fyrir hendi þegar takmarkanir eru settar á hann í ákveðnum tilvikum eins og hér. Ég átta mig því ekki alveg á því hvað það er sem veldur hv. þm. áhyggjum út af þessu ákvæði. Er það það að hann telur að ekki megi undir neinum kringumstæðum skerða rétt útvegsmanna til að framselja aflahlutdeildina? Er það hin raunverlega ástæða? Hver er hin raunverulega ástæða hv. þm. fyrir þeim áhyggjum sem hann hefur?