Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:15:22 (2870)

1997-01-30 11:15:22# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræðustíll ætti nú betur við ef við, ég og hæstv. ráðherra, værum orðnir svona 15 árum yngri og ég kominn í Æskulýðsfylkinguna og hæstv. ráðherra í Heimdall. Það er alveg ástæðulaust að vera að blanda því inn í þetta mál að menn hafi kannski viljað gera ýmsar breytingar í sambandi við stjórnkerfi fiskveiða, framsal veiðiheimilda og slíkt. Ég hef flutt tillögur t.d. um hækkaða nýtingarkvöð á kvóta þannig að ég hef verið í þeim hópi sem tel að þessi mikla tilfærsla sé gengin út í öfgar, hið svokallaða kvótabrask og sérstaklega þó leigan innan ársins, aflamarkið.

Nei, það er að sjálfsögðu ekki af því sem ég hef áhyggjur að þetta takmarki svigrúm útgerðanna til að færa fram og til baka veiðiheimildir. Ég hélt reyndar að ég hefði komið inn á það mál. Það sem ég hef áhyggjur af fyrst og fremst í þessu sambandi er að þessu fylgi þróun, þessu fylgi smátt og smátt þróun, ef ekki lagaleg eða réttarfarsleg þá a.m.k. pólitísk og efnahagsleg sem muni draga kjarkinn úr mönnum gagnvart því að þora að leggja til breytingar á stjórnkerfi fiskveiða, að hrófla við aflamarkinu eða aflahlutdeildinni, af því að það verði smátt og smátt að einhvers konar gullmyntfæti sjávarútvegsins, allra lánveitinga til útvegsins, það sé hættan. Ég get út af fyrir sig verið sammála um það að eins og málin standa í dag, þá er engin ástæða til að hafa áhyggjur af 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Hún tryggir þetta vel. En við þurfum að vera á varðbergi gagnvart þróun sem getur læðst aftan að mönnum og skapað erfiðleika af hvaða toga sem er að þessu leyti. Það er á því sviði sem mínar áhyggjur liggja, ekki hinu að þetta gæti bremsað möguleika útgerðanna til að færa til veiðiheimildir. Þá er það í lagi í sjálfu sér. En ef við viljum gera það þá eigum við að nota önnur tæki til þess. Þau sem liggja innan stjórnkerfis fiskveiðanna sjálfs og ekki að blanda (Forseti hringir.) ákvæðum af þessu tagi í óskyldum lögum þar inn í.