Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:17:37 (2871)

1997-01-30 11:17:37# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:17]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur að takmarkanir á framsali veiki þá réttarstöðu sem uppi er að Alþingi geti hvenær sem er breytt fiskveiðistjórnarlögunum og tekið upp hvaða fiskveiðistjórnarkerfi sem er. Ef við settum þá reglu að allt framsal væri bannað, værum við þar með að veikja þá stöðu sem kveðið er á um í fiskveiðistjórnarlögunum að þetta sé ekki afhending á varanlegum eignarréttindum? Værum við að veikja hana? Í sóknarmarkskerfi þar sem ekki er hægt að slíta veiðiréttinn frá skipinu, væru menn þá að búa til þá stöðu að það skyldi vera varanlegt kerfi? Væru menn þá að búa til þá stöðu að bankakerfið gæti tekið veð í veiðiréttinum og þar með að treysta einhverja varanlega ráðstöfun á veiðiréttinum af því að þar fylgir veiðirétturinn skipi en munurinn er bara sá að ekki er hægt að skilja hann frá?

Það er misskilningur að takmörkun á framsali hafi þessi áhrif. Það sést best á því að allir þeir sem eru að leggja til að framsal á aflamarki sé takmarkað með einum eða öðrum hætti eru ekki að gera það í þeim tilgangi að skapa varanlegan eignarrétt fyrir útgerðarmenn. Það er alls ekki tilgangur þeirra. Þó að ég sé ekki sammála ýmsum þeim tillögum þá veit ég að það er ekki sá tilgangur sem er þar á bak við. Það er aðeins þetta sem ég er að segja, hv. þm., að takmörkun á framsali hefur ekki þau áhrif sem hann hefur áhyggjur af.