Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:31:53 (2875)

1997-01-30 11:31:53# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:31]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt því fram að ákvæði 3. gr. mundu veikja ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og ég tel að það geri það í raun og sanni vegna þess að hér er verið að heimila veðsetningu á aflaheimildum og þar með að þeir sem hafi þessar aflaheimildir geti farið með þær eins og hverja aðra þinglýsta eign sína. Mér finnst þetta vera kattarþvottur hjá hv. þm. sem hér talaði, sem hafði stór orð um það áður að þetta kæmi aldrei til greina, þ.e. að sú breyting sem hér er gerð frá því sem áður var áformað er ekki mikil vegna þess að það er verið að heimila veðsetningu á kvótanum og 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. er mjög afdráttarlaus um það. Það stendur hér, með leyfi forseta:

,,Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.``

Þetta er alveg ótvírætt. Það sem verið er að banna í 1. málsl. 4. mgr. 3. gr. er verið að taka aftur í 2. mgr. Ef menn lesa þetta gaumgæfilega þá er það alveg ljóst. Þannig að í raun er ekki mikil breyting frá því sem menn áformuðu hér á síðasta þingi og margir framsóknarþingmenn lögðust mjög hart gegn.