Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:20:50 (2899)

1997-01-30 12:20:50# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hv. þm. Framsóknar fari heldur að biðjast vægðar og þá sérstaklega þeir sem koma úr Reykjanesarminum, en ég held að það sé skýrasta orðalagið, herra forseti, að segja: Þetta frv. jafngildir veðsetningu kvótans. Það er út af fyrir sig rétt að samkvæmt orðanna hljóðan er það ekki kvótinn sjálfur sem er veðsettur, enda ekki hægt því að honum er úthlutað á skip og er ekki til í sjálfu sér sem sjálfstæð eining þannig. Það hefði verið beinlínis andstætt lögunum um stjórn fiskveiða að leyfa sjálfstæða veðsetningu kvótans, þannig að hann væri sjálfstætt veðandlag. En þetta jafngildir algerlega veðsetningu kvótans. Og það sem meira er, þetta jafngildir því að svo til allur kvóti á íslenskum fiskiskipum verði veðsettur frá og með gildistöku þessara laga ef svona verður gengið frá þessu vegna þess að það eru afar fá skuldlaus fiskiskip að veiðum við Ísland.

Þetta mál hefur verið þannig fram að þessu að í gangi hafa verið einstakir hliðarsamningar og skútusamningar eins og við vitum þar sem á móti lánveitingum hafa útgerðarmenn skuldbundið sig til að hreyfa ekki við veiðiheimildum nema með samþykki síns viðskiptabanka. Það hafa verið gjörningar algerlega til hliðar á milli þessara aðila. En þeir hafa verið undantekningin frekar en reglan. Að uppistöðu til hafa lánastofnanir ekki haft neina tryggingu í veiðiheimildunum. En hvað fá þær með þessu frv.? Þær fá þetta og þess vegna held ég, herra forseti, að menn hafi ekkert áttað sig á því hversu gífurlega afgerandi þessi aðgerð er. Hún jafngildir ekki bara sem slíkri þessari tryggingu í einhverjum einstökum atriðum. Hún þýðir ósköp einfaldlega að allur veiðikvóti á veiðiskipum við Ísland festist í reynd sem trygging lánastofnananna. Það gerist þannig vegna þess að þetta er altækt og hver minnsta skuld sem hefur þýtt veðsetningu á skipi sem hefur veiðileyfi og veiðiheimildir í íslensku veiðilögsögunni festir þar með allan kvótann.