Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:49:12 (2904)

1997-01-30 12:49:12# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:49]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. þm. við mínum málflutningi. Það atriði sem þingmaðurinn nefndi þegar hann vísaði til ræðu minnar, að ég hefði ekki orðið var við miklar yfirlýsingar frá útgerðarmönnum eða LÍÚ um þetta mál og benti á tengsl formanns Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem er formaður bankaráðs Íslandsbanka og stjórnarmaður í Fiskveiðasjóði, þá ætla ég einfaldlega ekkert að tjá mig í sjálfu sér um það. Formaður LÍÚ hefur hingað til alveg verið maður til að skýra sinn málstað, sjónarmið og skoðanir. Þetta er staðreynd hins vegar sem þingmaðurinn benti á. Ég ætla hins vegar hvorki að gera formanni LÍÚ né öðrum upp einhverjar skoðanir sem tengjast setu manna í stjórnum eða öðru slíku. Ég hef enga ástæðu til þess. En er það alveg rétt sem þingmaðurinn bendir á? Þetta er þannig vaxið að sá einstaklingur sem hér um ræðir situr í þessum stjórnum en ég fullyrði ekkert um og hef enga ástæðu til að halda að það hafi á einhvern hátt áhrif á skoðanir eða málflutning hans.