Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 13:38:16 (2910)

1997-01-30 13:38:16# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[13:38]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Frv. um samningsveð er nú komið á dagskrá eins og alþjóð veit eftir mjög langan aðdraganda sem staðið hefur yfir alveg frá því á síðasta kjörtímabili. Margt af því sem kemur hér fram og flest hefur verið talið nauðsynlegt sem tæki til þess að halda utan um veðsetningar og fjármál þjóðarinnar þannig að í sjálfu sér hefur frv. að mestu leyti verið ágreiningslaust milli manna innan þingsins eftir því sem ég best veit. Aðeins eitt atriði mun ég segja að veki ágreining og ég er einn af þeim sem hafa ekki getað stutt ákveðið atriði í þessu frv. en það lýtur að veðsetningarmálum á fiskikvóta landsmanna.

Í 3. gr. þessa frv., 4. lið, stendur, með leyfi forseta:

,,Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar.``

Þessi texti hefur aðeins breyst frá því að þetta frv. var kynnt fyrir stjórnarflokkunum og búið er að setja inn í þennan texta afdráttarlaust að þarna sé átt við aflahlutdeild fiskiskips. Áður var það einungis tiltekið í skýringum. Þetta hefur að sumra mati verið nægjanlegt til þess að réttlæta það að styðja frv. og þar með sé ekki heimilt að veðsetja kvóta. Í mínum huga skiptir þetta ákvæði í rauninni ekki neinu máli því það hefur aldrei verið leyfilegt að veðsetja kvóta einan og sér. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, er ekki hægt að fá kvóta eins og komið hefur fram öðruvísi en að eiga skip og þar með er veðsetning á kvótanum einum og sér ekki lögleg miðað við þau lög sem eru nú þegar til staðar. Þetta ákvæði í 3. gr. er þannig óþarft og skiptir því ekki neinu máli í umræðunni. Það sem skiptir máli í þessari umræðu er síðari málsliður í 4. lið, þ.e.: ,,Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.``

Þarna er einmitt komist með snilldarlegu móti að leið til þess að hægt sé að veðsetja kvótann. Þetta er eina færa leiðin sem hægt er að finna svo að veðsetningin sé möguleg. Þetta er eiginlega alveg þveröfugt við það sem þeir segja sem hafa viljað kalla þetta snilldarlegt ákvæði til þess að koma í veg fyrir veðsetningu kvótans, þetta er eina leiðin sem er fær svo að hægt sé að veðsetja hann. Þetta er alla vega mín skoðun á þessu ákvæði og ætla ég ekki að segja að ég sé einhver stóridómur í að skýra svona lög. Þess vegna hef ég farið á fund nokkurra lögmanna og beðið þá um að túlka þetta fyrir mig, þá persónulega, og lagt fyrir þá fimm spurningar sem ég tel nauðsynlegt að fá svarað. Ég tek fram að þeim spurningum mundi ég líka vilja fá svarað þegar þar að kemur í hv. allshn. sem ég á sæti í, þar sem nefndin mundi sjálf hugsanlega fram á það við ákveðna aðila að svara slíkum spurningum. En fyrsta spurningin sem ég lagði fyrir þessa lögmenn sem voru nokkrir hæstaréttarlögmenn var þessi: ,,Veitir 2. málsl. 4. liðar 3. gr. frv. heimild til að veðsetja réttindi eins og aflahlutdeild sem skipum er úthlutað samkvæmt 2. málsl. 7. gr. laga nr. 38/1990, með síðari breytingum, um stjórn fiskveiða?`` Svar lögmannanna er afdráttarlaust já. Það veitir þeim útgerðum rétt sem eiga aflahlutdeild að veðsetja slíka aflahlutdeild hvað sem öðru líður.

Önnur spurningin var svohljóðandi, að því gefnu að fyrsta spurningin væri jákvæð: ,,Er hægt að aðskilja nýtingarréttinn við veðsetningu frá verðmætinu sem nýtingarréttinum fylgja?`` Svarið við henni er nei, vegna þess að verðmætin eru fólgin í nýtingunni og þar með er aðskilnaður á þessu tvennu ómögulegur.

Í þriðju spurningunni sem hljóðar svo, ef við gefum okkur að svar við fyrstu spurningunni sé jákvætt: ,,Er ríkissjóður skaðabótaskyldur ef Alþingi ákveður að fella úr gildi aflahlutdeildarkerfið sbr. 2. málsl. 7. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og nýtt ákvæði um stjórn fiskveiða yrði t.d. sóknarmarkskerfi?`` Svarið við þeirri spurningu er að líkurnar séu yfirgnæfandi að það mundi skapast skaðabótaskylda af hálfu ríkissjóðs. Líkurnar eru yfirgnæfandi að mati þessara manna.

[13:45]

Fjórða spurningin var svo: ,,Getur ákvæði 4. liðar 3. gr. stangast á við refsiramma laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, þ.e. að veðið rýrni óeðlilega að mati veðhafa vegna refsiákvæða laganna?``

Að mati þessara lögmanna eru miklar líkur á því að þetta ákvæði í frv. geti stangast á við refsirammann þannig að hann haldi ekki.

Fimmta og síðasta spurningin var svo: ,,Tryggir 4. liður 3. gr. frv. betur ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, að nytjastofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar, eða verður þetta ákvæði laganna um sameign þjóðarinnar marklaust?``

Að mati lögmannanna verður þetta ákvæði til að draga úr gildi þessa lagaákvæðis um stjórn fiskveiða því að þessi nýju ákvæði samkvæmt frv. munu færa þennan eignarrétt nær óbeinum eignarrétti og veikja því ákvæðið ef eitthvað er.

Þetta eru þær spurningar sem ég fékk svarað, reyndar í stuttu máli frá þeim lögmönnum sem ég leitaði til og af þeim ástæðum hef ég lýst því opinberlega yfir að ég geti ekki að óbreyttu stutt þetta frv. nema það komi þá í ljós síðar að ég hafi haft rangt fyrir mér og þeir lögmenn sem þessum spurningum mínum hafa svarað.

Þá skipta í sjálfu sér engu máli í mínum huga þær athugasemdir sem eftir að frv. fór í gegnum minn flokk hafa komið til viðbótar, þ.e. 8., 9. og 10. liður í skýringum þar sem verið er að útskýra þessi ákvæði um eignarréttinn og um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í framtíðinni því að athugasemdir yfirtaka ekki lagaákvæði eins og dæmin sanna. Það kom fram í umræðum hér á þingi í gær að reglugerðar\-ákvæði og athugasemdir geta ekki upphafið þau lög sem hafa verið samþykkt á Alþingi. Þess vegna geta athugasemdir sem þessar ekki upphafið textann. Í besta falli getur hann verið til leiðbeiningar í upphafi og menn nýtt sér það, en síðan mun reynslan og praxísinn leiða það í ljós að þessar athugasemdir verði einskis virði.

Þá komum við að því að þegar búið er að heimila veðsetningu samkvæmt þessum ákvæðum og skipin eru orðin veðsett með aflahlutdeild. Hvað gerist í rauninni þegar menn hafa öðlast þennan rétt? Hvað er það sem bankar og lánastofnanir munu krefjast eftir að slíku ákvæði hefur verið komið inn í lögin? Það sem ég óttast helst og ég hef heyrt að fleiri taka undir þau sjónarmið, er að lánastofnanir munu að sjálfsögð ætlast til þess að sjávarútvegsfyrirtæki með alhliða starfsemi muni færa skuldir sínar sem veð á útgerðirnar með allsherjarveði, að það verði eitt allsherjarveð yfir allt fyrirtækið sem muni þá veðsetja allan kvótann um leið fyrir öllum þeim skuldum sem á fyrirtækinu hvíla. Það þýðir í rauninni að ef við ætlum einhvern tíma að aflétta þessu ákvæði, þ.e. veðsetningunni og breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, þá yrðum við, ef við vildum gera þetta, að standa klár að því að við þyrftum að greiða upp allar skuldir sjávarútvegsins. Við yrðum með ríkisábyrgð á öllum skuldum sjávarútvegsins. Við erum að skapa þá ríkisábyrgð með þessum lögum. Þannig lítur þetta út í mínum huga.

Nú eru skuldir sjávarútvegsins um 100 milljarðar. Þetta er það sem ég óttast að geti gerst með þessum lögum, þ.e. að við festum kvótakerfið um ókomna tíð. Ég vil taka það fram að ég hef ekki verið andstæðingur þessa kvótakerfis og hef talið það hafa ýmsa kosti. Aftur á móti hef ég ekki getað fallist á að það verði ómögulegt um ókomna framtíð að breyta einum staf í kvótakerfinu öðruvísi en hafa leyfi banka og veðhafa fyrir þeirri breytingu. Ég get ekki sætt mig við það ef það verður niðurstaða þeirra rannsókna sem ég geri ráð fyrir að við munum láta fara fram á þessu frv.

Þetta neglir náttúrlega um leið niður eignarrétt útgerðanna á kvótanum og um leið mætti segja sem svo að yfirráð sjávarútvegsfyrirtækja, sem eru orðin skuldug og kvótinn um leið, munu færast til bankanna. Bankastofnanir koma hugsanlega til með að stjórna því hvernig kvótaeignin verður nýtt í framtíðinni hjá þeim fyrirtækjum (Gripið fram í: Þeir hafa nú komið nálægt því hingað til.) sem hafa ekki burði til þess til þess að standa undir eigin rekstri.

Herra forseti. Það er margt sem menn þurfa að huga að þegar kemur að því að velta fyrir sér afleiðingunum í praxísnum þegar farið verður að vinna samkvæmt þessum lögum, ef af verður. Spurningin er t.d: Munu þessi lög skapa lögveðhöfum rétt í kvótanum? Mun t.d. sjóveð hafa rétt í kvóta? Þá erum við að tala um ýmislegt sem kemur inn, eins og hafnargjöld. Hafa þau sjálfkrafa rétt í kvótanum ef til kemur að útgerð getur ekki borgað? Laun. Samningar. Þetta eru allt saman mjög teoretískar spurningar sem hljóta að koma upp í þeirri skoðun sem fer fram í hv. allshn. Hvernig mun þetta geta gengið í praxís? Hvert mun þetta þróast? Við höfum séð kvótakerfið þróast á ýmsa vegu og að margra mati óheppilega, kannski í stórum dráttum á heppilegan veg en að mörgu leyti hefur það gengið mun lengra á skemmri tíma en margur hefði ætlað þegar lögin um kvótakerfið voru sett. Það er því spurning hvort veðsetningin muni bjóða upp á algert kaos eins og sagt hefur verið við mig í sambandi við veðsetningar, í sambandi við veðheimildir sem eiga að ganga á milli, heimildir banka og lánastofnana fyrir því að hægt sé að færa heimildir á milli skipa. Þetta verður alfarið í höndum lánardrottnanna. Hvernig mun þetta virka þegar farið verður að vinna með lögin?

Herra forseti. Ég tel að það þurfi að vinna mikið verk áður en ég sannfærist um það að frv. eins og það kemur hér fyrir geti orðið að lögum. Ég hef minnst á það við hv. formann allshn. og hæstv. dómsmrh. að valinkunnir menn yrðu fengnir til þess að svara spurningum sem kæmu frá nefndinni. Eins og þetta lítur út nú þá get ég ekki stutt þetta frv. eins og ég hef sagt áður. En ef öll allshn. og þeir ráðgjafar sem við fáum til að skoða málið með okkur komast að annarri niðurstöðu eða þá að breytingar fást á frv. sem munu sannanlega koma í veg fyrir að kvótinn verði veðsettur eins og gert er ráð fyrir hér, þá mun ég geta breytt afstöðu minni, en ekki fyrr.