Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:08:15 (2918)

1997-01-30 14:08:15# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:08]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila mjög lengi um þetta við hæstv. dómsmrh. sem er löglærður maður. Ég þykist aftur á móti vita að ef Alþingi mundi ákveða að húseignir mætti ekki veðsetja þrátt fyrir að þær væru fullveðsettar, þá þyrfti einhver að bera skaðann af því. Ef tekin eru einstök ákvæði eins og lóðarleiguréttindi út úr heildarmati fasteigna og sagt að það dygði ekki lengur sem veð yrði einhver að bera skaðann af því ef til kæmi að leita þyrfti eftir sölu á íbúðinni til að greiða upp áhvílandi lán sem hefði verið krafið greiðslu á. Allt eru þetta mjög tæknileg atriði sem ég hygg að sé best að fá hlutlausa menn til þess að meta fyrir okkur. Ég fagna því aftur sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan að hann teldi það mjög eðlilegt og þar mun þessu verða svarað sem okkur greinir á um hér.