Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:32:11 (2922)

1997-01-30 14:32:11# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:32]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég komst ekki yfir að svara þeirri spurningu hv. þm. sem hann varpaði fram til mín; hvers vegna þyrfti að flytja þetta núna, af hverju mætti ástandið ekki vera óbreytt? Eins og menn rekur minni til flutti ég þetta frv. í fyrra og þá gerði ég ráð fyrir að engin ákvæði yrðu um þetta. Ég leit svo á að þar sem engin lagaákvæði væru fyrir hendi sem bönnuðu veðsetningu á aflaheimildum væri það frjálst. Hins vegar kom upp sú staða eftir að dómur féll sem skírskotaði til fiskveiðistjórnarlaganna og komst að þeirri niðurstöðu að ef ekki væru sérstök lagaákvæði væri þetta óheimilt. Það sjá allir að eftir að sá dómur lá fyrir var komin upp slík réttaróvissa að óhjákvæmilegt var að Alþingi tæki af skarið. Þessi dómur fór hins vegar ekki til Hæstaréttar, þetta er undirréttardómur. Ég er ekki sammála þeim lögfræðilegu rökum sem hann byggðist á en honum var ekki áfrýjað. Það olli því að upp var komin réttaróvissa og við slíkar aðstæður getur Alþingi ekki látið það hanga í lausu lofti hvernig þessum málum er skipað. Það verður að eyða óvissu og taka afstöðu. Þess vegna er þetta frv. lagt fram sem byggir á því að takmarka framsalið með þeim hætti sem hér er skýrt.