Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:56:52 (2925)

1997-01-30 14:56:52# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:56]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þeir hv. þingmenn sem tekið hafa mest upp í sig um framsal aflaheimilda heita Guðmundur Hallvarðsson og Guðjón Guðmundsson. Þeir eru báðir í þingflokki þessa hæstv. ráðherra. Þeir eru samflokksmenn hans.

Í öðru lagi benti ég hæstv. sjútvrh. á hvað hann væri að leggja hér til. Hann er að leggja til auðvelda leið til að koma í veg fyrir framsal aflaheimilda til þess að koma í veg fyrir að kvótinn flytjist úr byggðarlaginu með því að gera ráð fyrir því að það þurfi samþykki allra veðhafa til slíks, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, hvort sem þeir eru margir eða fáir.

Í þriðja lagi stendur orðrétt, herra forseti, í 4. mgr. 3. gr.:

,,Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.``

Hafi sjónvarpsfyrirtæki verið veðsett þá er eiganda þess óheimilt að skilja útvarps- eða sjónvarpsleyfið, leyfið til þess að útvarpa eða sjónvarpa á tiltekinni rás frá nema með heimild viðkomandi veðhafa. Það þýðir að veðhafi getur gengið að slíku fyrirtæki ef það á í erfiðleikum og komið höndum yfir þau réttindi sem fyrirtækið hefur í þessu sambandi nákvæmlega eins og veðhafi getur komist yfir veiðiheimildir skipa með sömu aðferðum. Og ég spyr: Áttar hæstv. ráðherra sig ekki á því að menn eru í 3. gr. að ræða um almenn réttindi en ekki bara þau réttindi sem stjórnvöld úthluta með úthlutun aflaheimilda og greiðslumarks? Mörg önnur réttindi sem eru veitt til nýtingar á atvinnurekstri eru skráð opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti. Það eru m.a. þau réttindi sem ég hef hér talið upp.