Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:33:59 (2935)

1997-01-30 15:33:59# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:33]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hv. þm. olli mér nokkrum vonbrigðum því að ég sé að það var skilningsskortur en ekki flokkslínan sem hafði ruglað hv. þm. í ríminu. En sannleikurinn er auðvitað sá að hér er verið að mæla fyrir um það að lánveitendur geti tekið veð í skipunum, en þeim er jafnframt tryggt að það er ekki hægt að selja aflahæfi skipsins frá því meðan veðið stendur. Og það sem deilan stendur um er þetta. Deilan stendur ekki um veðið í skipunum. Deilan stendur um það hvort selja megi veiðiréttinn í burtu og það er einmitt þetta sem ég held að sé heilbrigt að lánveitingar snúist um, að þær geti metið möguleika fyrirtækjanna til þess að skapa verðmæti. Hér er einvörðungu verið að tryggja að þessi möguleiki sé ekki tekinn af skipi sem hefur verið veðsett þannig að það er einmitt verið að ýta undir þá hugsun að lánastofnanir geti veitt lán út á rekstrarhæfni en ekki bara stál í skipsskrokkum.