Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:36:09 (2937)

1997-01-30 15:36:09# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:36]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem nú er tekið til umræðu er fyrst og fremst til þess að verða við kröfum banka og sjóða um að fá veð í kvóta gegn lánum. Þetta mál er búið að vera lengi í umfjöllun og um það hefur verið alvarlegur ágreiningur sem lýtur aðallega að veðsetningu aflaheimilda. Ég kem öðru fremur upp hér til þess að lýsa yfir andstöðu minni við það ákvæði.

Greinar þessa frv. fjalla um samningsveð. Ég hlustaði á tvær hv. þingkonur Framsfl. hrósa sér fyrir aðild að frv. og lýsa stolti yfir því að hafa snúið á Sjálfstfl. í vinnslu þess. Ekki veit ég, herra forseti, í hverju það liggur að þær sneru á Sjálfstfl. Hv. þingkonur gerðu ekki grein fyrir því hvernig það fór fram.

Tilurð frv. í þeirri mynd sem það er nú snýst fyrst og fremst um að heimilt verði að veðsetja sameign þjóðarinnar. Allar aðrar greinar falla í skuggann fyrir 3. gr. frv. Það er ekki þar með sagt að þær séu slæmar. Það er ekki þar með sagt að allt frv. sé slæmt. Ég hygg að ég geti tekið undir ýmislegt sem felst í þessu frv. en ekki 3. gr., ég get það ekki.

Framsfl. hét því að heimila ekki veðsetningu kvóta. Flokkurinn er með þessu frv. að svíkja þau loforð og þar með að rýra ákvæði 1. gr. laganna um fiskveiðistjórnun sem kveða á um sameign þjóðarinnar á fiskinum í lögsögu Íslands.

Herra forseti. Það sem hér er á ferðinni, ég ítreka það, það er verið að veita heimild til veðsetningar kvóta. Um þetta fjallar 3. gr. frv. í löngu máli og innihaldinu er pakkað inn eins og nál í heystakk. Það fer eftir hver les hvort það er í flóknu máli eða skýru og einföldu. Það er kannski ágalli íslenskra laga að ákvæðin eru ekki nógu gagnmerk. Þau eru oft torskilin og það er nærri því þannig að löglærða aðila þarf til að skýra þau. En þó er það svo að til kvaddir þrír eða fjórir slíkir koma oftast með mismunandi skýringar. Það er svo merkilegt. Og það er ekki undarlegt þó að þeir rækjust á, löglærðu mennirnir sem hér voru að takast á áðan, hæstv. dómsmrh. og hv. 6. þm. Suðurl. Það var eðlilegt að þeir væru með mismunandi túlkun. Af þessu tilefni, herra forseti, ætla ég að fjalla um 3. gr. frv. og skýringar með henni sérstaklega. Ég reikna ekki með að þeir sem hlýða á þessa umræðu verði miklu nær um málefnið, en það er rétt að sýna þjóðinni eða leyfa fólki að hlusta á eitt það skýrasta frv. sem kemur frá ríkisstjórninni að mati hv. 6. þm. Suðurl., til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. En ég vil benda á að jafnframt sagði hv. þm. að réttaróvissan mundi aukast með þessu frv., einu skýrasta frv. sem fram hefur komið á Alþingi að mati hv. þm.

Hvernig eiga svo þessir ólöglærðu menn eins og sá sem hér stendur að komast í gegnum torfið? Allt hitt torfið ef þetta er það skýrasta. Ég vil fara aðeins yfir 3. gr., með leyfi herra forseta:

,,1. Veðréttur verður eigi stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða eignast kann.`` Ætli það gæti ekki verið að löglærðir menn mundu flækjast eitthvað í því að skýra þetta? En skýringin með greininni er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Í 1. og 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins kemur fram hin svokallaða sérgreiningarregla, sem nánar er vikið að í almennum athugasemdum með frumvarpinu.`` --- Vonandi að fólk skilji hvað hér er verið að tala um.

,,Regla 1. mgr. er sama efnis og regla 1. mgr. 4. gr. gildandi laga um bann við allsherjarveðsetningu, þ.e. bann við veðsetningu í öllu því, sem maður á eða eignast kann. Er hér mælt fyrir um tiltekið gildisskilyrði veðsetningar, þ.e. með ákvæðinu er verið að setja samningsfrelsi um veðsetningar vissar skorður. Gegnir hinu sama um ákvæði 3. mgr. 3. gr. um bann við sjálfsvörsluveðsetningu í heildarsafni muna, en sú frumvarpsgrein er að mestu sama efnis og 2. mgr. 4. gr. gildandi laga.`` Það gæti nú einhver spurt: Bíddu við, hvað var maðurinn að segja? Hvað var verið að fara með? Eitt skýrasta ákvæði lögfróðs manns, eitt skýrasta ákvæði í lagasetningu íslenskra laga eða frv. sem hefur fram komið á hinu háa Alþingi.

Hvernig má þá vera að um er að ræða yfirveðsetningu æ ofan í æ, hvernig má það vera að á fasteignum sem eru að verðmætamati eða sölumati upp á 7 millj. kr. hvíli veð upp á allt að 12 millj. kr.? Það er ekki þetta sem er verið að koma í veg fyrir með lögum um samningsveð, nei, ekki aldeilis. Það er ekki verið að koma í veg fyrir þetta.

2. mgr. 3. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta: Og þá er nú fróðlegt, herra forseti, að fá að vitna í skýringarnar fyrir 3. gr.: ,, Þótt segja megi, að efni 2. mgr. 3. gr. leiði af almennum reglum, þykir rétt að orða slíka reglu í veðlögum. Veðsetning, sem brýtur gegn ákvæðinu, getur verið ógildanleg í heild eða að hluta, en niðurstaða í þeim efnum ræðst af efni þeirrar lagareglu eða þess samningsákvæðis, sem takmarkar réttinn til þess að ráðstafa viðkomandi réttindum.``

Fróðlegt væri nú, herra forseti, að velta því fyrir sér hversu margir, ef það eru einhverjir sem eru að hlusta á þessa umræðu sem fram fer á hinu háa Alþingi, hversu margir skilja þær skýringar sem hér var verið að fara með. Ætli það þyrfti ekki eins og fjóra lögfræðinga til þess að fara í gegnum þetta og til þess að komast að a.m.k. fjórum álitum um hvað þessi orð táknuðu sem hér voru lesin upp. (GÁ: Þeir hafa nú bara atvinnu af því að hafa mismunandi ...) Ja, það er akkúrat það sem við erum að gera, við erum að útvega mönnum atvinnu, hv. þm. Guðni Ágústsson.

Herra forseti. Ég má til með að vitna áfram í 3. gr. þessa frv. þar sem segir í 3. mgr.: ,,Umfram það sem lög þessi eða önnur lög leyfa er eigi heimilt að setja að sjálfsvörsluveði safn af munum sem eru samkynja eða ætlaðir til samkynja notkunar og eru einkenndir einu almennu nafni.``

[15:45]

Herra forseti. Þetta er greinin sem hefur verið deilt um í allan dag. Það eru fjölmargir þingmenn búnir að koma upp í ræðustól og ræða málin. Kemur alveg ljóst fram að tvær skoðanir eru uppi á hinu háa Alþingi. Það er skoðun stjórnarliða og það er skoðun stjórnarandstæðinga um einmitt þetta atriði, sem er andstæð. Og skýringin, herra forseti, er svohljóðandi:

,,Regla 4. mgr. 3. gr. á við um þau tilvik þegar veðsett eru fjárverðmæti sem á eru skráð réttindi til nýtingar í atvinnurekstri og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt og halda skrár um. Sem dæmi um slík réttindi má nefna aflahlutdeild`` --- aflahlutdeild, hv. þm. Guðni Ágústsson, sem er verið að heimila veðsetningu á --- ,,sem úthlutað er á skip, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og greiðslumark sem úthlutað er á lögbýli samkvæmt ákvæðum reglugerða sem stoð eiga í lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Sjá um hið síðastnefnda reglugerðir nr. 360/1995, um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 1995--1996, og reglugerð nr. 541/1994, um greiðslumark sauðfjárafurða á lögbýlum og beinar greiðslur verðlagsárið 1995--1996.``

Herra forseti. Hvernig ætli standi á því að ekkert hefur verið rætt um þessar síðustu skýringar, að veðsetja kvóta á lögbýlum? Ætli gildi ekki svolítið öðru máli um það en fiskinn í sjónum? Það gæti nú verið þó að það hafi ekki verið rætt hér. Ég lýsi því yfir að ég gæti hugsað mér allt aðra málsmeðferð varðandi það eignarhald.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara meira í gegnum þessar lagaskýringar og lagagreinar sem eru þær einföldustu og skýrustu sem hér hafa komið fram. En ég vona að þeir sem á hlýða, ef einhverjir gera það, átti sig á því að þetta er ekki svo auðskilið eins og það lítur út fyrir að vera eftir að menn hafa fjallað um þetta, því að það eru alla vega a.m.k. fjórar útgáfur af skýringum á hverri einustu setningu af þeim sem ég hef lesið þegar þetta er komið í vörslu eða umfjöllun lögfræðinga.

Herra forseti. Það sem ég hef farið yfir ætlar Sjálfstfl. að keyra í gegn á Alþingi undir forustu hæstv. sjútvrh. og dómsmrh. með fulltingi Framsfl. eins og fram hefur komið í umræðunni. Mér er reyndar fullkunnugt um að nokkur hópur eða töluverður hópur stjórnarliða er ekki sáttur við frv. eins og það er en lýtur í raun í lægra haldi fyrir meirihlutaafli innan stjórnarliðsins. Ég get auðvitað skilið það. Það eru vinnubrögö sem tíðkast að meiri hlutinn ræður og þess vegna er þetta mál komið inn í þingið.

Í þessari umferð læt ég þessa umfjöllun nægja, herra forseti, en ég vona að hv. allshn. beri gæfu til að fara mjög nákvæmlega yfir þetta frv., orða vel og skýra það sem þörf er á að skýra á ótvíræðan máta. En veðsetningu fiskveiðiheimilda get ég ekki samþykkt með nokkru móti. Ég lít, eins og ég sagði áðan, öðrum augum á greiðslumark sauðfjárafurða og mjólkur. Þar er um eignarrétt að ræða sem gildir allt öðru máli um hvað varðar veðsetningu. Þó má ég til með eftir það sem kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh. að láta það í ljós að ef skýrt og ótvírætt kemur fram að verið er að takmarka brask, þá mun ég endurskoða það sem ég hef hér sagt. Ég verð á móti þessu ákvæði 3. gr. en ef verið er að takmarka brask með fiskinn í sjónum og það kemur skýrt og ótvírætt fram, þá er ég til viðtals um að skoða það að styðja málið. En þó að hæstv. dómsmrh. hafi kveðið já við því að með þessu frv. væri verið að takmarka frjálst framsal, þá tek ég ekki mark á því þó að menn segi svona já eða nei sitt á hvað eftir því sem til þeirra er talað.