Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:51:11 (2938)

1997-01-30 15:51:11# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:51]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir rökræður í dag gerist það að hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum kemur og í rauninni hefur yfir sömu setninguna, þ.e. að verið sé að veita heimild til veðsetningar á kvóta. Hér sé Framsókn að svíkja loforð og einhverjir í stjórnarflokkunum hafi lotið í lægra haldi fyrir meiri hluta o.s.frv. Þetta mál er búið að fara í mikla umfjöllun í þingflokkunum og hefur verið grandskoðað út frá því að 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna haldist, skýlaus eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni í hafinu.

Ég hef sagt og get lesið það í frv. að hér er ekki um veðsetningu aflaheimilda að ræða. Það er bannað. En hitt hef ég játað að um kvaðabindingu er að ræða sem er þess eðlis --- og ekkert óeðlileg --- að ef menn selja afnotaréttinn sem þeir hafa takmarkaðan tíma í sinni hendi hvort sem það eru aflaheimildir til sjávar eða greiðslumark á bújörð, þá verða þeir að standa lánastofnunum eða skuldurum skil á því. Þeir mega ekki fara með þetta í burtu.

Nú vil ég spyrja hv. þm.: Er sanngjarnt að einhver maður til sjávarins sem á skip og hefur á því þúsund þorskígildi megi án þess að spyrja kóng eða prest selja þorskígildin í burtu fyrir 600 millj., eins og sú upphæð kostar í dag, og eftir liggur verðlaust skip? Ber honum ekki að gera skil á skuldum sínum eða á hann að láta þjóðina borga slíkar skuldir? Þess vegna varð að setja kvaðabindingu inn að það verði að leita eftir þinglýstu leyfi.

Alveg það sama er um bújörðina. Við skulum taka 100 þúsund lítra af mjólk og þeir seldir í burtu á 15--20 millj. Eftir er verðlaus jörð sem ekki selst. Hver á að bera skaðann? Eiga þessir einstaklingar að fá að ganga burtu með þessa peninga og láta síðan almenning í landinu í gjaldþrotum og töpum í bönkum borga hitt?