Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:55:13 (2939)

1997-01-30 15:55:13# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:55]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hinn hugumstóri og stórhjartaði hv. þm. Guðni Ágústsson spurði hvort ætti að heimila kvótahöfum að flytja til verðmæti að eigin geðþótta eða láta það falla á heimabyggðirnar. Það er ekkert um þetta rætt í þessu máli, ekki nokkurn skapaðan hlut, hv. þm. Það sem um er að ræða er að hér stendur sem skýring við 4. mgr. 3. gr. að það eigi við um þau tilvik ef veðsett eru fjárverðmæti sem á hafa verið skráð réttindi til nýtingar í atvinnurekstri og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt og halda skrár um. Sem dæmi slíkra réttinda má nefna aflahlutdeild. Það er ekki verið að veðsetja neina kvaðabindingu, hv. þm. Það er verið að veðsetja kvóta og ekkert annað. Ég tel að það sé til að rýra ákvæði 1. gr. sem varðar allsherjareign þjóðarinnar á kvótanum. Þess vegna er ég á móti málinu.

Hins vegar hef ég sagt: Ef um er að ræða að verið sé að takmarka möguleika á braski, ef ég fæ þann skilning, sem ég hef ekki fengið enn þrátt fyrir þær umræður sem hér eru í gangi, þá mun ég skoða þetta mál mjög vel og betur en ég hef gert á undanförnum dögum. Ég lýsi því hér yfir. En ég sé engar tryggingar fyrir heimabyggðirnar í þessu máli til að halda hjá sér aflaheimildum frekar en verið hefur.