Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:55:48 (2940)

1997-01-30 15:55:48# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:55]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður er skilningurinn ekki alltaf réttur hjá hv. þm. Ég var ekkert að tala um að verið væri að veðsetja neina kvaðabindingu. Ég sagði að ekki væri um veðsetningu aflaheimilda að ræða, en verið væri að kvaðabinda þá sem hefðu þessi réttindi eða eins og segir í frv. ,,Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.`` Það sneri að því, eins og ég var að segja áðan. Einhver lánastofnun eða einstaklingur á í veðinu, við skulum segja 300 millj. en síðan eru bara aflaréttindin seld í burtu fyrir 600 millj. Eftir liggur skipsskrokkur og einskis virði. Síðan kemur gjaldþrot og almenningur borgar. Mér finnst að við séum með þessu móti að tryggja rétt almennings gegn því að slíkt eigi sér stað. Nú er ég ekki að segja að þetta eigi sér stað. En eins og hér hefur komið fram í dag eru því miður skúrkar í öllum stéttum. Ég er sannfærður um það, hv. þm., sem maður hefur nú séð ljósið kvikna hjá, að þetta frv. mun draga úr því sem kallað hefur verið brask og tryggir að aflaheimild haldist á því skipi sem fékk hana úthlutað. Menn stökkvi ekki með hana burtu o.s.frv. Ég er því tiltölulega sáttur við málið eins og það er en tek undir með hv. þm. að auðvitað verður að skoða málið sem best og upplýsa sem flesta þannig að þeir skilji málið og geti jafnvel fylgt því.