Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:57:56 (2941)

1997-01-30 15:57:56# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:57]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um samningsveð, merkur lagabálkur og mikilvægur að mínu mati. Það var svo sannarlega kominn tími til að ljúka því verki að ná fram frv. til laga um samningsveð og tryggja þá mjög mikilvægu hagsmuni sem lúta að veðsetningu og tryggingu lána og tryggingu eigna.

Þegar litið er á tilgang frv. eins og hann lítur út í mínum augum er það auðvitað fyrst og fremst til að skapa öryggi í viðskiptum sem þetta frv. er flutt og það er ekki svo lítið hlutverk. Það að skapa öryggi í viðskiptum endurspeglar síðan væntanlega að það bætir stöðu þeirra sem veita lán. Það skapar þeim skilyrði til að lækka vexti og það skapar skilyrði til að lánastofnanir geti greitt hærri vexti vegna þess að minna verður um afföll og kostnað sem fylgir vanskilum og eykur útgjöld lánastofnana. Þess vegna er þetta frv. afar mikilvægt í okkar flókna viðskiptasamfélagi sem kallar á, eins og eðlilegt er, að veitt séu lán en fyrir lánum þarf að setja tryggingar.

[16:00]

Eins og ég sagði áðan er frv. mjög mikilvægt að mínu mati. Það snýr auðvitað fyrst og fremst að því að tryggja öryggi í viðskiptum. En í þessari umræðu hafa hlutirnir hins vegar æxlast þannig að umræðan snýst fyrst og fremst um veðsetningu eða ekki veðsetningu aflaheimilda, en í 4. mgr. 3. gr. segir, með leyfi forseta, í síðari málslið:

,,Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.``

Út af fyrir sig finnst mér ekki skipta máli hvernig þessi texti hljóðar en aðalatriðið í mínum huga er að það sé alveg tryggt að lánastofnanir sem veita lán út á skip hafi tryggingu fyrir sínum lánum. Og þá kemur að þessari spurningu: Hvernig er þessari tryggingu varið? Ég verð að viðurkenna að mér sýnist og ég tel í rauninni að þetta nálgist það mjög að verið sé að veðsetja aflaheimildir. Lítum aðeins á þetta og skoðum hvernig lánastofnun eigi að taka tryggingu í skipi. Er einhver tilgangur í því fyrir lánastofnun að taka veð og tryggja sín útlán í skipi sem ekki hefur skrúfu? Ég held að ekki nokkrum manni detti í hug að veita útgerðarmanni lán og taka tryggingu í skipi sem getur ekki farið á sjó. Alveg nákvæmlega eins er engin glóra í að lána útgerðarmanni fjármuni út á skip sem engar aflaheimildir hefur.

Sú leið sem hér er farin er að mínu viti mjög skynsamleg og ég verð að lýsa yfir mikilli ánægju með hvaða leið hæstv. sjútvrh. og hæstv. dómsmrh. og kirkjumrh. sem er einn og hinn sami maður, fer hér. Hann fer þá leið sem um hefur náðst sátt innan stjórnarliðsins og tryggir jafnframt að mínu mati fullkomlega hagsmuni þeirra sem þurfa að veita lán og það finnst mér vera mjög mikið atriði. Mér finnst að í umræðunni hafi menn gert lítið úr því að nauðsynlegt sé að tryggja þegar lán er veitt. Auðvitað þarf að tryggja það og reyna að sjá til þess að þær aðstæður séu hjá lántakanda að hann geti greitt til baka. Það á ekki að gera lítið úr því. Ég tel að ekki sé eðlilegt að útgerðarmaður sem hefur aflaheimildir geti leikið lausum hala með þær aflaheimildir og jafnvel selt þær þegar hann hefur fengið lán í krafti þess möguleika að sækja sjó til að sækja afla á grundvelli veiðiheimilda.

Ég tel að frv. eins og það er úr garði gert hvað varðar 3. gr., sé fær og hin ágætasta leið og tryggi það sem ég tel að sé mikilvægt að tryggja.

Þá vil ég koma aðeins að því, hæstv. forseti, sem hv. 11. þm. Reykn., Ágúst Einarsson ræddi í sinni ræðu í dag. Hv. þm. lagðist gegn þessu ákvæði. Hann taldi ekki nauðsynlegt að hafa uppi þessa möguleika til trygginga. Ég er honum algerlega ósammála. Hann taldi hins vegar ekkert óeðlilegt við það og sakna ég nú hv. þm. hér í salnum, að útgerðarfyrirtæki færðu til eignar í reikningum fyrirtækja sinna aflaheimildir, færðu jafnvel afskriftir af aflaheimildum inn á rekstrarreikning. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel í fyllsta máta óeðlilegt að aflaheimildir séu færðar formlega í efnahagsreikning fyrirtækja og ég tel líka mjög óeðlilegt að heimila útgerðum að afskrifa kvóta sem keyptur er. Ég lít svo á að aflaheimildir séu varanleg eign þjóðarinnar sem útgerðarmenn hafa fengið aðgang að. Þeir hafa með úthlutun aflahlutdeildar fengið rétt til þess að sækja í þessa auðlind, en þeir hafa engan rétt til þess að afskrifa og lækka sín útgjöld á þennan hátt, þ.e. aflaheimildirar eða þau kaup á aflaheimildum sem stofnað er til. Þetta er mín skoðun. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn mun væntanlega fá tækifæri til þess síðar að ræða það nákvæmlega hvaða aðferðir ég tel eðlilegt að séu viðhafðar að þessu leyti, en ég tel að ekki eigi að heimila afskriftir aflaheimilda til lækkunar á rekstrarútgjöldum útgerðarfyrirtækja. Það er mín skoðun. Það vil ég að komi hér fram og ég vek athygli á því sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykn., Ágústi Einarssyni, sem telur það eðlilegt. Hann leggst hins vegar gegn því að með lögum um samningsveð verði réttur lánveitenda tryggður.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til þess að orðlengja um þetta. Ég lýsi eindregnum stuðningi við frv. og ég geri svo sem ekki mikið veður út af því þó að samstarfsmenn okkar sjálfstæðismanna í ríkisstjórn líti svo á að þetta sé kostur sem uppfylli þeirra óskir. Ég sé ekki að á nokkurn hátt sé hægt að segja að þau sjónarmið sem ég aðhyllist í þessum efnum hafi orðið undir. Aðalatriðið er að tryggja að menn geti ekki hlaupið með aflaheimildir af skipum sem hafa verið veðsett. Það er grundvallaratriðið hvað varðar 3. gr. frv.