Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:38:42 (2947)

1997-01-30 16:38:42# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:38]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór út og suður um þetta efni (TIO: Það hefur þú gert líka.) og ég man nú satt að segja, a.m.k. ekki í þessari umræðu, að hafa heyrt þvælukenndari framsögu eða ummæli um íslenskan sjávarútveg en það er hans mál.

Í fyrsta lagi felur þetta frv. í sér veðsetningu kvóta og skips. Það er óaðskiljanlegt og það eru verðmætin sem hér er verið að tala um. Í öðru lagi er með þessu frv. lánastofnunum veittur meiri réttur en sjómönnum. Í þriðja lagi er lögfesting þessa frv. fjandsamleg landsbyggðinni vegna þess að þetta mun fyrst og fremst koma niður á þeim fyrirtækjum sem búa við veika fjárhagsstöðu. Slík fyrirtæki eru mörg á landsbyggðinni og þegar bankastofnanir hafa fyrst góð tök til að kvelja þá ef um framsal verður að ræða. Hann nefndi að ókeypis úthlutun kvóta væri ekki rétt. Áður fyrr hefðu menn þurft skip. Ég er að átta mig á því að hv. þm. virðist ekkert átta sig á því um hvað fiskveiðistjórnarkerfið snýst. Það snýst um það að 1984 og reyndar fyrr í sumum fisktegundum takmarkaði ríkisvaldið sókn í fiskstofna með því að úthluta veiðiheimildum. Takmörkuðum gæðum er úthlutað og verður þá verðmæti sem ganga kaupum og sölum milli einstakra útgerðarmanna eftir tilteknum lögum. Þessi fénýting á óveiddum fiski í sjó eða veiðiheimildum hefur verið hér við lýði nokkuð lengi. Menn hafa ekki greitt fyrir þær veiðiheimildir sem þeir fengu úthlutað. Það hefur alltaf þurft skip til þess að sækja fisk í sjó. Það varð sú grundvallarbreyting þegar ríkisvaldið varð að takmarka sókn í fiskstofna vegna ofveiði að þá öðlaðist veiðirétturinn verðmæti í sjálfum sér og út á það snýst nú öll umræðan um ókeypis úthlutun og gjaldtöku fyrir hana. Stórkostleg eignatilfærsla hefur átt sér stað í þessu þjóðfélagi frá því að þetta kerfi var tekið upp og ég vil benda hv. þm. á 1. gr. laga um stjórn fiskveiða: ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.``

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er hluti íslensku þjóðarinnar alveg eins og allir hv. alþingismenn eða sérhver einstaklingur í þessu þjóðfélagi. Þeir eiga þessa nytjastofna og það er réttmæt krafa þegna í þessu þjóðfélagi að þeir fái afrakstur til sín með skýrum og skilmerkilegum hætti. Það segir einfaldlega í lögum hvað svo sem hv. þm. finnst til um 15. þm. Reykv.