Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:52:54 (2954)

1997-01-30 16:52:54# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:52]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var vikið að því áðan að útgerðin skilaði litlum 200 milljónum í tekjuskatt. Það er rétt. Svo virðist vera sem útgerðin skili mjög litlum tekjuskatti. En er þá ekki rétt að menn fari að víkja örlítið að því við hvaða aðstæður útgerð var rekin hér fyrir nokkrum árum. Útgerðin var orðin stórskuldug og hún hefur einmitt á þessum árum verið að nýta sér rétt sinn til þess að lækka skuldirnar og reikna sér inn þann taprekstur sem reyndar er miðaður við ákveðinn árafjölda hér þó víðast hvar erlendis sé hann ótakmarkaður í árafjölda. Útgerðin er núna að nýta sér þennan frádrátt og þessar skattgreiðslur munu breytast mjög verulega á þessu ári og á næsta ári. Það er bara fyrirsjáanlegt ef menn vilja hafa fyrir því að líta á það.

Í síðasta lagi kom fram að kvóti væri seldur frá byggðarlögunum og þau skilin eftir í uppnámi. En vilja menn ekki hugleiða það, og þá sérstaklega hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, að byggðarlögin voru ekkert betur sett þegar útgerðir fóru á hausinn og skip voru seld burtu úr byggðarlögunum hér á árum áður. Þá var nákvæmlega sama vandamálið uppi sem náttúrlega styrkir þá skoðun mína sem ég lagði fram áðan að aðgangurinn að fiskimiðunum var náttúrlega áður útgerðarinnar. Nú hefur þetta verið sameinað, þ.e. kvótinn og skipin og þar af leiðandi er eðlilegt að kvótinn fari úr byggðarlögunum ef ekki tekst að reka skipin. Það er sama lögmál og áður gilti þannig að það hefur ekki breyst með kvótakerfinu. Það er mjög algengt að menn kenni kvótakerfinu um ýmis vandræði sem koma upp í þessu þjóðfélagi en eru því gjörsamlega óskyld.

Ég verð að geta þess í lokin að því miður get ég nú ekki verið við framhaldið á þessum merku umræðum. Ég þarf að þjóta í flugvél sem er að fara til Akureyrar og missi því að þeirri athugasemd sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur hér á framfæri. En ég mun að sjálfsögðu lesa þingtíðindin og kynna mér athugasemdir hans.