Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:37:57 (2970)

1997-01-30 17:37:57# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:37]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ólöglegt kvótabrask er ekki leyft. Varðandi fyrirspurn hv. 19. þm. Reykv. vil ég vísa til þess að ég var búinn að svara henni í andsvari fyrr í dag en skal endurtaka það að réttarstaðan að þessu leyti er alveg óbreytt. Það er frjálst framsal á aflaheimildum og útgerðarmaður getur meira að segja selt banka bæði skip og aflaheimildir. Eins og hér hefur komið fram hefur gerst við núverandi aðstæður að bankarnir eða eignarhaldsfélög þeirra eignast sjálfir skipin og þeir framleigja þau útgerðarmönnunum. Eins og ég er búinn að skýra út mörgum sinnum í umræðunni hefur þetta engin áhrif á réttarstöðuna að því er varðar spurninguna um eignarrétt aflaheimildanna. Þetta hefur engin áhrif á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna.

Það hvort banki eignast skip með veiðiheimildum í frjálsum samningum eða með nauðarsamningum breytir engu þar um. Alþingi er því jafnfrjálst að því eftir samþykkt þessara veðlaga að breyta fiskveiðistjórnarlögunum eins og áður. Þau eru algerlega hlutlaus að þessu leyti og skerða á engan hátt rétt Alþingis til að breyta fiskveiðistjórnarlögunum hvenær sem er. Það er enginn bótaréttur af hálfu ríkisvaldsins gagnvart þeim sem hafa aflaheimildir í dag þó að nýtt fiskveiðistjórnarkerfi verði tekið upp. Þótt það framsal verði takmarkað með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir frekar en nú er gert þá skapar það engan frekari rétt til bótaskyldu nema síður sé.